135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins tvær spurningar til hv. framsögumanns félagsmálanefndar áður en lengra er haldið í umræðunni. Ég tek eftir því í breytingartillögu um 8. gr. að gert er ráð fyrir að fulltrúi Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum sé tekinn út úr Jafnréttisráði og í stað þess er lagt til að í nefndina komi fulltrúi Félags um foreldrajafnrétti. Ég vil fá aðeins nánari rökstuðning fyrir þessari ákvörðun. Ég skil í sjálfu sér það sem hér er sagt um þá ákvörðun að taka fulltrúa frá Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum út en það er ekki neinn rökstuðningur fyrir því að taka fulltrúa frá Félagi um foreldrajafnrétti inn.

Ég bendi á að Félag um foreldrajafnrétti hét til skamms tíma Félag ábyrgra feðra. Það félag starfar á höfuðborgarsvæðinu. Sambærileg félög eru sennilega á öðrum stöðum á landinu, ég veit a.m.k. að á Akureyri er starfandi félag sem hefur þjappað sér saman um sömu mál. Ég spyr: Hvers vegna var ekki frekar valinn fulltrúi frá Félagi einstæðra foreldra sem eru landssamtök einstæðra foreldra og starfa á svipuðum grunni?

Hin spurningin sem mig langaði að bera upp við hv. framsögumann nefndarinnar varðar vottunarkerfi. Skoðaði nefndin einhverjar fyrirmyndir að því vottunarkerfi sem lögin gera ráð fyrir að komið verði upp? Og vegna fjármunanna sem þarf til að vinna þetta vottunarkerfi á næstu tveimur árum vil ég spyrja hv. þingmann, sem er líka nefndarmaður í fjárlaganefnd: Er gert ráð fyrir fjármunum beinlínis til vottunarkerfisins á fjárlögum yfirstandandi árs, ársins 2008?