135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skuli komið á dagskrá og stefni í að það verði að landslögum. Frumvarpið byggist að uppistöðu til á starfi nefndar sem var skipuð í júnímánuði 2006 en fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þeirri nefnd var Valgerður H. Bjarnadóttir sem mjög hefur komið við sögu jafnréttismála hér á landi.

Ég set nafn mitt undir nefndarálit með frumvarpinu án fyrirvara þótt því sé ekki að neita að einstakar greinar þess hefði ég að sönnu viljað hafa á annan veg en eins og hér kom fram er niðurstaðan í ýmsum efnum þar byggð á málamiðlun. Nefndin starfaði afar vel, verð ég að segja, og leysti formaður hennar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, verkstjórnarhlutverk sitt vel af hendi.

Umsagnir með frumvarpinu skiptast nokkuð í tvö horn. Annars vegar eru umsagnir frá verkalýðssamtökum, kvennahreyfingum, aðilum sem sýsla með jafnréttismál, en þeir aðilar eru á heildina litið jákvæðir í garð frumvarpsins þó að athugasemdir séu gerðar við einstaka efnisþætti þess. Það er helst að gagnrýni komi frá atvinnurekendum, Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Svo er það þriðji hópurinn sem hefði viljað að haft hefði verið nánara samráð við sig og það er Samband íslenskra sveitarfélaga. Sérstakt álit kemur frá Reykjavíkurborg þar sem kvartað er yfir því að þessir aðilar hafi ekki fengið frumvarpsdrögin til skoðunar og veittur til þess rýmri tími en raun bar vitni.

Af því sem best er í frumvarpinu vil ég nefna að hlutverk Jafnréttisstofu er aukið og því gefið meira inntak en verið hefur. Það er samdóma álit allra að þótt jafnréttislögin frá 1976 hafi verið til góðs hafi þau ekki þjónað hlutverki sínu eins og væntingar stóðu til. Tilgangur lagabreytinganna nú er að reyna að ná fram markvissum úrbótum. Jafnréttisstofa fær eftirlitshlutverk, fær heimildir til að fara í saumana á gögnum, ef upp kemur rökstuddur grunur um að farið sé á skjön við jafnréttislög í einstökum fyrirtækjum. Þetta tel ég vera til góðs og minni á að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa margoft flutt frumvörp á þinginu sem eru í þessa veru og ég nefni sérstaklega hv. þm. Atla Gíslason sem ítrekað hefur flutt tillögur þessa efnis.

Í frumvarpinu er lagaákvæði sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki geti bannað fólki að upplýsa um launakjör sín. Það tel ég vera mjög jákvætt skref fram á við. Staðreyndin er sú að launaleynd hefur heldur verið að færast í aukana og þá ekki síður hjá hinu opinbera en á einkamarkaði. Sú var tíðin að aðgangur að launaupplýsingum hjá hinu opinbera var allgóður miðað við það sem verið hefur í seinni tíð. Hvað það snertir vísa ég í álitsgerðir frá samtökum launafólks innan opinbera geirans, BHM og BSRB, sem hefðu viljað fá lagaákvæði sem opnuðu betur á innsýn í launakerfið en nú er gert. Ég tel að stjórnvöld þurfi að taka þau mál til skoðunar nú á næstu vikum og mánuðum. Það er sannfæring mín að í skjóli launaleyndar þrífist misréttið og þá ekki síst það misrétti sem er á milli kynjanna.

Sá þáttur sem mest var ræddur á síðustu metrunum við afgreiðslu úr félagsmálanefnd var skipan í Jafnréttisráð. Ég tel að heppilegt væri að fjölga í Jafnréttisráði frá því sem nú er gert ráð fyrir. Eins og fram kom í máli hv. formanns félagsmálanefndar, Guðbjarts Hannessonar, voru uppi tvö sjónarmið í nefndinni hvað það snertir. Annars vegar það sjónarmið að fækka bæri í nefndinni, hins vegar að fjölga bæri í nefndinni. Ég var í þeim hópi sem vildi fjölga í nefndinni og mig langar til að gera grein fyrir því hvers vegna.

Ef litið er á hlutverk Jafnréttisráðs þá er það fyrst og fremst vettvangur til umræðu og ráðgjafar um stefnumótun. Ekki er um að ræða framkvæmdastjórn eins og gerist í stofnunum og fyrirtækjum, heldur er ráðið fyrst og fremst umræðuvettvangur, vettvangur þar sem sjónarmið eiga að koma fram. Þar held ég að sé til góðs að reyna að virkja alla eða flesta þá sem láta sig þessi mál varða. Við erum vissulega með jafnréttisþing að auki sem gegna þessu hlutverki en ég hefði talið að útvíkkun Jafnréttisráðs hefði jafnframt verið heppileg, bæði til að veita sjónarmiðum farveg inn í stjórnkerfið til ráðherra sem fer með þessi mál og til Jafnréttisstofu eins og Jafnréttisráði er ætlað samkvæmt lögunum.

Það er einnig á þessu önnur hlið. Með því að veita stofnunum eða samtökum aðild að ráðum á borð við þetta er líka verið að virkja þau. Ég nefni sem dæmi verkalýðssamtök sem fá heimild til að skipa í nefndir og ráð. Þau kalla iðulega til sín fulltrúa sína sem gera þá grein fyrir því starfi sem farið hefur fram á þessum vettvangi, leita eftir upplýsingum um sjónarmið, stefnumótun og óskir samtakanna. Þetta örvar, með öðrum orðum, umræðu í viðkomandi samtökum. Það er eins konar lýðræðislegur vaki að veita samtökum heimild og aðgang að ráðum á borð við þetta. Það eru rök mín fyrir því að heppilegra hefði verið — og að heppilegra sé, því að við getum enn breytt þessu — að útvíkka Jafnréttisráð, hafa fleiri. Ég fagnaði því hins vegar að málamiðlunin sem við náðum var í þá átt að fjölga, hún var í þá veru. Það sjónarmið varð á endanum uppi og varð þess valdandi að ég ákvað að styðja nefndarálitið án fyrirvara. Ég ítreka að ég tel frumvarpið, þessi lög sem vonandi verða, á heildina litið til góðs og vísa þar í álit sem fram koma frá Jafnréttisstofu, frá samtökum launafólks og öðrum sem sérstaklega sýsla með þessi mál.