135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:54]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum nefndarmönnum fyrir gott samstarf við vinnslu og breytingar á þessu frumvarpi. Ég held að segja megi að allir aðilar hafi verið sammála um að mikilvægt væri að frumvarpið næði fram að ganga, að það færi til 2. umr. í góðri sátt og um það væri í öllum meginatriðum þverpólitísk samstaða og sú varð raunin.

Eins og fram hefur komið er markmið lagafrumvarpsins alveg skýrt, en það er að jafna stöðu kvenna og karla og tryggja enn frekar og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í stjórnsýsluhluta laganna er fyrst og fremst verið að fjalla um hlutverk Jafnréttisstofu og kærunefndar en eins og fram kemur í frumvarpinu er það verkefni Jafnréttisstofu að sjá um fræðslu- og upplýsingastarfsemi, að veita víðtæka ráðgjöf í tengslum við jafnrétti kynjanna, að setja fram tillögur er lúta að því að ná fram jafnrétti kynjanna, auka aðild karla að jafnréttisstarfi, fylgjast með þróun jafnréttismála, vinna að forvörnum, gegn kynbundnu ofbeldi, gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaðinum og leita sátta í ágreiningsmálum sem Jafnréttisstofu berast, og nokkur önnur ákvæði til viðbótar eru þarna fram talin.

Formaður nefndarinnar hefur farið býsna ítarlega yfir þær breytingartillögur sem fram komu og líka yfir efnisinntak frumvarpsins í heild sinni.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er fyrirtækjum og félagasamtökum skylt að veita Jafnréttisstofu, svo að maður fari aðeins ofan í hlutverk hennar, hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi hennar. Í frumvarpinu er sú stóra breyting gerð að ef hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök verða ekki við beiðni Jafnréttisstofu um afhendingu upplýsinga og gagna innan hæfilegs frests getur hún ákveðið að viðkomandi aðili greiði dagsektir þar til umbeðnar upplýsingar liggja fyrir. Þar er um nýmæli að ræða.

Í lögunum er skýrt kveðið á um að starfsmönnum Jafnréttisstofu sé algerlega óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla annarra upplýsinga eða gagna en þeirra sem eru nauðsynleg eða kunna að vera nauðsynleg í þágu eftirlitsstofnunarinnar. Enn fremur er þeim óheimilt að veita eða afhenda öðrum aðilum máls og kærendum jafnréttismála upplýsingar eða gögn sem aflað er í þágu eftirlitsins, sem starfsmenn kunna að verða áskynja vegna starfa sinna við lausn ágreiningsmála. Settar eru skýrar reglur um það hvernig starfsmönnum ber að takmarka aðgang annarra að þeim upplýsingum sem þeir kunna að afla og hvernig þeir nota þær upplýsingar sem þeir afla sér.

Þá er jafnframt fjallað um það að komist Jafnréttisstofa að þeirri niðurstöðu að upplýsingar og gögn renni stoðum undir það að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna skuli hún óska eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún taki málið til meðferðar og skal þá tilkynna hlutaðeigandi skriflega um þá ákvörðun sína. Jafnréttisstofa skal að beiðni kærunefndar fylgja því eftir að úrskurði kærunefndar jafnréttismála sé framfylgt eftir því sem við getur átt. Þegar sá sem úrskurður kærunefndar beinist að fer ekki að úrskurðinum getur Jafnréttisstofa beint þeim fyrirmælum til viðkomandi að gripið verði til viðunandi úrbóta innan hæfilegs frests. Verði sá sem úrskurður beinist að ekki við fyrirmælum Jafnréttisstofu, og hér er um grundvallaratriði að ræða, getur Jafnréttisstofa ákveðið að viðkomandi greiði dagsektir þar til farið verður að fyrirmælum.

Af þessari yfirferð, sem þó er ekki næstum því eins ítarleg og hjá formanninum áðan, er augljóst að Jafnréttisstofa hefur fengið ný og öflug tæki í hendur til að fylgja markmiðum frumvarpsins eftir. Jafnvel þótt ýmsir aðilar, bæði innan þings og utan, hafi talið að verið væri að færa of mikið vald til Jafnréttisstofu voru nefndarmenn sammála um að látið skyldi á þetta reyna í trausti þess að Jafnréttisstofa færi vel með vald sitt, gæti jafnréttis og meðalhófs í störfum sínum eins og hún hefur gert hingað til. Það verður að segjast eins og er að því miður hefur ekki verið farið nægilega vel eftir niðurstöðum Jafnréttisstofu hingað til og því nauðsynlegt að fá henni ný verkfæri í hendur. Ég var sjálfur mjög hugsi yfir sektarákvæðinu en það er grundvallaratriði að þegar niðurstaða kemur frá stofnun eins og Jafnréttisstofu séu menn tilneyddir að fara eftir henni enda geta þá þeir aðilar sem úrskurðurinn beinist að farið með málið upp á næsta stjórnsýslustig, til kærunefndar.

Í frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir með breytingartillögum er kærunefnd heimilt að úrskurða að kærandi skuli greiða gagnaðila málskostnað ef kæra er að mati nefndarinnar bersýnilega ástæðulaus. Verið er að breyta frumvarpinu í þá veru að auka jafnræði á milli aðila. Í stað þess að kostnaður greiðist í ríkissjóð, eins og áður var kveðið á um í 5. gr. frumvarpsins, er kveðið á um að greiða skuli þeim sem verður fyrir ákærunni þann kostnað.

Í 6. gr. er fellt út ákvæði sem kveður á um að kærunefndin geti tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingum annarra. Félagsmálanefnd taldi það hlutverk Jafnréttisstofu og geta aðilar því leitað til hennar. Ef aðilar eru ósáttir er hægt að fara með málið upp á næsta stjórnsýslustig eins og áður eða til kærunefndar. Þetta er grundvallarbreyting í frumvarpinu, það hefði verið óeðlilegt að kærunefndin sem slík hefði sjálf getað tekið upp mál á grundvelli gagna sem hún hefði undir höndum. Ég held að það hljóti að vera hlutverk Jafnréttisstofu enda mun hún væntanlega fá öll þau gögn sem kærunefndin hefur undir höndum eða hafa aðgang að þeim.

Í 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um að sveitarstjórnir skuli skipa jafnréttisnefndir að loknum sveitarstjórnarkosningum. Rétt þótti að taka fram, og er kveðið á um það í sveitarstjórnarlögum, að í smærri sveitarfélögum þyrfti ekki að vera um sérnefnd að ræða heldur gæti hlutverk jafnréttisnefndar verið hluti af störfum annarra nefnda. Við sjáum það öll í hendi okkar að það gæti verið mjög erfitt fyrir lítil sveitarfélög að skipa og standa straum af kostnaði við það að hafa sérstaka nefnd utan um jafnréttismálin. Það er eðlilegra að taka þessi mál inn sem hluta af störfum annarra nefnda eins og t.d. félagsmálanefnda sveitarfélaganna.

Í 18. gr. er kveðið sérstaklega á um markmiðssetningu jafnréttisáætlunar í stað þess sem áður var að gerðar skyldu tvær aðskildar áætlanir, jafnréttisáætlun og framkvæmdaáætlun. Tilgangurinn er sá að einfalda lögin og gera jafnréttisáætlunina sem slíka skilvirkari.

Í 26. gr. frumvarpsins er stóru atriði breytt sem snýr að rökstuðningi við ráðningu í starf. Eins og greinin var sett fram gat hver sá sem sótti um starf óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningu, burt séð frá því hversu stórt fyrirtæki stóð að ráðningunni, hver eignasamsetning var eða í hvaða rekstri viðkomandi fyrirtæki var. Að áliti nefndarinnar, og í ábendingum mjög margra, var þarna allt of langt gengið og talið að slíkt yrði mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki, sérstaklega einkafyrirtæki með þröngt eignarhald, eiga að hafa mjög mikið svigrúm til ráðninga og geta lagt nánast hvað sem er til grundvallar. Það kristallast t.d. skýrt í fjölskyldufyrirtækjum. Fjölskyldufyrirtæki þarf að vera hægt að reka á forsendum fjölskyldna. Þetta á líka við um ýmis smærri fyrirtæki þó að allir séu sammála um að markmið tengd jafnrétti eigi að sjálfsögðu alltaf að vera hluti af heildarmynd.

Ef óskað er eftir rökstuðningi fyrir ráðningu kallar það á heilmikil sérfræðiskrif og sérhvert svar hefði eflaust orðið til þess að öll fyrirtæki hefðu þurft að leita til sérfræðinga. Ef mál hefðu verið kærð til dómstóla eða til Jafnréttisstofu á grundvelli svarsins hefði svarið orðið gagn í málinu. Segjum að lítið fyrirtæki hefði fengið fyrirspurn í tölvupósti: Af hverju var þessi ráðinn? Sá sem þarf að svara slíkri fyrirspurn er þá kannski sá sem sér um bókhaldið, sá sem sér um ráðninguna, sá sem er á akrinum og sér um að afla verkefna. Það er kannski einn og sami maðurinn sem gerir þetta allt. Það er varla hægt að ætlast til þess að sá maður hafi sérstaka þekkingu á þessu sviði og því mjög eðlilegt að fella þetta út. Eftir sem áður geta aðilar, hafi þeir rökstuddan grun um mismunun á grundvelli kynferðis, leitað til Jafnréttisstofu og hún tekið málið til meðferðar.

Í 27. gr. frumvarpsins er fjallað um bann við uppsögn o.fl. vegna kæru eða leiðréttingarkröfu. Þar var felld brott eftirfarandi málsgrein: „Við mat á því hvort ákvæði þetta hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.“ Ekki verður séð að þessi grein eigi heima í 27. gr. laganna og voru nefndarmenn sammála um að hún yrði felld út í heilu lagi.

Eins og formaður félagsmálanefndar rakti hefur frumvarpið tekið ýmsum orðalagsbreytingum sem miða að því að milda nálgun gagnvart atvinnulífinu í þeim tilgangi að allir aðilar gangi í takt. Jafnréttislög verða algerlega gagnslaus nema traust ríki á milli aðila, traust ríki á milli launþega, atvinnurekenda, framkvæmdarvaldsins og löggjafans um innihald þeirra. Það er ekki nema allir þessir aðilar séu sammála því að um réttsýn lög sé að ræða, að framkvæmd þeirra sé réttlát, að við náum betri árangri í þessa veru.

Nefndin var líka sammála því að setja inn bráðabirgðaákvæði er snýr að jafnréttisvottun og hefur formaður nefndarinnar rakið það vel í máli sínu.

Frú forseti. Mig langar að nálgast þetta mál frá öðru sjónarhorni. Það er alveg klárt að við erum að auka umfang stofnunar og við erum að flækja stjórnsýsluna með það sameiginlega markmið í huga að auka jafnrétti. Við erum að leggja ákveðnar kvaðir á atvinnulífið til að auka og bæta jafnrétti hér á landi. Almennt snýst umræðan mikið um það að auka vægi ýmissa stofnana og fjölga stofnunum en í hinu orðinu tala menn líka um einfaldara Ísland og að fækka beri stofnunum og einfalda stjórnsýsluna. Ég held að við þurfum alltaf að hugsa um þessa hluti, „báknið burt“ og „báknið kjurt“ er umræða sem við verðum að fara í.

Ef við missum okkur alveg og förum út í þá einstefnu að fjölga stofnunum, efla þær og auka eftirlitið og taka upp hinar og þessar gerðir, sem við erum reyndar í flestum tilvikum skuldbundin til að gera af Evrópusambandinu, getum við lent í vandræðum sem ýmis önnur ríki hafa lent í og eru að reyna að komast út úr. Í Þýskalandi og Frakklandi hefur t.d. mikið verið rætt um það mikla skrifræði og það mikla bákn sem atvinnulífið þar býr við. Þeir eru að reyna að brjótast út úr því að einhverju marki. Í hvert sinn sem breyta á vinnulöggjöf í Frakklandi ætlar allt vitlaust að verða, allt logar í verkföllum og ekki er hægt að koma neinu til leiðar. Bretar gerðu átak í því á sínum tíma að brjótast út úr reglugerðafargani og tókst nokkuð vel til, enda varð mikil breyting þar á bæ í efnahagslegu tilliti.

Við verðum sífellt að hafa þetta í huga jafnvel þó við séum að samþykkja þessi lög, ég er alls ekki að mæla gegn þeim. En við verðum að taka, og ég held við höfum öll verið sammála því, hugmyndafræðina um einfaldara Ísland alvarlega. Upplýsingatæknin og upplýsingaöldin átti að einfalda umhverfi okkar en ekki að flækja það og því vil ég vekja sérstaklega máls á þessu. Við þurfum að viðhalda þeirri öflugu samkeppnisstöðu sem Ísland hefur vegna þess að höfum ekki fengið yfir okkur þann laga-, reglugerða- og stofnanaflækjustrúktúr sem er í ýmsum löndum sem við berum okkur saman við. Það er forskot sem við höfum og því forskoti verðum við að halda.