135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:35]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel einmitt mikilvægt að bæði kynin taki þátt í baráttunni fyrir jöfnum rétti kynjanna. Ég er undrandi á hinni óskaplegu áherslu á formið, á umbúðirnar en ekki á innihaldið, þ.e. hverjir skipi Jafnréttisráð, eins og það sé ekki allt saman ágætis fólk hvaðan sem það kemur.

Það að Félag um foreldrajafnrétti sé minna virði en önnur samtök, mér þætti gaman ef hv. þingmaður upplýsti menn um af hverju svo er. Þetta félag hét reyndar áður Félag ábyrgra feðra sem mér fannst dálítið slæmt nafn. Það neyddi mig eiginlega til að ganga í félagið nema ég vildi vera flokkaður sem óábyrgur faðir. Ég sé ekkert að því að það félag taki þátt í Jafnréttisráði. Ég tel að það geti átt ágætisfulltrúa þar inni eins og önnur þau félagasamtök sem þar koma inn.

En ég spyr: Skiptir Jafnréttisráð og stjórn þess virkilega svo miklu máli að markmið frumvarpsins og laganna hverfi, þ.e. að stuðla að jafnrétti kynjanna?