135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:43]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér gætir misskilnings sem þarf að skýra, þ.e. varðandi málflutning hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um vottunarkerfin. Vottunarkerfin eru alls ekki hugsuð fyrir minnstu fyrirtækin, þvert á móti snúast þau um stærstu og öflugustu fyrirtækin, sem eru með vottunarkerfi á ýmsum sviðum og geta innleitt þar jafnréttisvottun einnig. Þau eru ekki til að leysa mál litlu fyrirtækjanna. Þau munu aldrei ráða við að vera í einhverjum öflugum vottunarkerfum af þeim toga sem við þekkjum til í sambandi við vottun fyrirtækja almennt.

Ég vil taka sérstaklega fram að ég treysti Jafnréttisstofu afar vel til að fylgja eftir jafnréttismálum. En það er ekki nóg. Það þarf að vera þannig að atvinnulífið treysti Jafnréttisstofu jafn vel. Því er ekki að leyna að það hefur komið fram sem sjónarmið í umræðunni að þetta sé allt of fræðileg vinna og uppskrúfuð og að menn óttist að aukið verði á pappírsvinnu og annað slíkt. Það verður verkefni okkar eftir að þessi lög verða samþykkt að eyða þessu vantrausti hjá einstökum atvinnurekendum og tryggja að áætlanir verði auðveldar í framkvæmd en skilvirkar. Það skiptir mestu máli.

Ég ítreka það sem ég hef sagt áður, að árangurinn af jafnréttisbaráttunni ræðst af því að allir aðilar komi að borðinu og berjist sameiginlega. Enginn tjáir sig andvígan því að ná árangri í jafnréttismálum en það eru margir sem hafa komist undan því að fylgja því eftir með formlegum hætti í fyrirtækjum sínum og það er okkar verkefni að tryggja að nú komi allir að borðinu, sinni verkefninu af fullum krafti og að við náum betri árangri.