135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:02]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get í meginatriðum tekið undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um jafnréttismálin og stöðu jafnréttis í landinu. Þar er mikið verk að vinna og mikilvægt að vel takist til varðandi lagasetninguna.

Mig langar að leiðrétta þann misskilning, ef skilja mátti það af máli mínu um að tortryggni eða vantraust ríkti á milli smærri fyrirtækja og jafnréttisstofnana, að tortryggni ríkti gagnvart Jafnréttisráði. Tortryggnin tengist ekki skipun Jafnréttisráðs, hún tengist öðrum atriðum, t.d. varðandi það hvernig við högum framkvæmdaáætlun og öðrum slíkum kröfum. Við reyndum að hafa ákvæðin mildandi til að reyna að eyða þeirri tortryggni.

Sömuleiðis hefur hv. þm. Siv Friðleifsdóttir rétt fyrir sér varðandi launavottunina. Ég vil taka undir orð hennar um að auðvitað er afstætt hvort það er dýrt ef við hefðum getað komið á launavottun fyrir 76 millj. kr., þótt að ég segi að það sé hátt verð. Við gerum engu síður tillögu um að fara einu skrefi lengra, þ.e. að vera með launavottun en til viðbótar vottun á atriðum sem snúa að öðrum þáttum jafnréttislaganna. Ef fyrirtæki getur sett inn í vottunarkerfi sitt vottun sem varðar öll jafnréttislögin og sýnt að það sinni öllum þeim þáttum í skipulagi sínu þá losnar það hugsanlega við þann eftirlitsiðnað eða það eftirlit sem fylgir að öðru leyti, þ.e. viðurkenndur aðili mundi þá staðfesta að viðkomandi fyrirtæki fylgi jafnréttislögum í gegnum vottunina.

Það er ástæða til að ítreka að vottunarhugmyndin er viðbót við jafnréttislögin. Hún kemur ekki í staðinn fyrir neitt annað en er valkostur fyrir stærri og öflugri (Forseti hringir.) fyrirtæki til að beita öðrum aðferðum en við gerum ráð fyrir í lögunum.