135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:04]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að búið er að skýra það betur að ekki var átt við Jafnréttisráð í þeim orðum sem áðan féllu, að þau uppskrúfuðu orð beindust ekki að Jafnréttisráði. Það er gott af því að af þeim orðum mátti skilja að þetta væri persónutengt. En ég heyri að svo er ekki miðað við útskýringarnar sem nú eru komnar fram og það er gott.

Hins vegar þykist ég hafa heyrt þennan tón áður í umræðunni um jafnréttismál. Sumir telja að þetta séu mál sem einungis konur hafi nánast atvinnu af og einoki þann slag. En það er alls ekki svo. Þær konur eru svo mikilvægar að það skal enginn ýta þeim í burt, svo ég segi það bara hreint út. Það er mikilvægt að hafa baráttukonur sem vinna í þessum geira og fylgja eftir þeim framförum sem hér verða.

Varðandi launavottunina þá skil ég það svo, og er ánægð ef það er rétt, þá skil ég það svo að ekki sé vikið frá því sem fyrri ríkisstjórn vann að, en þar vorum við framsóknarmenn í fararbroddi, með félagsmálaráðuneytið á okkar könnu. Hæstv. forseti Magnús Stefánsson er einn af þeim aðilum. Það er sem sagt áfram unnið á þeim grunni. Ég tel reynandi að fara út í vottunarmálin af því að við höfum náð svo lélegum árangri. Það liggur við að maður sé til í að prófa allt af því að við höfum ekki náð nógu góðum árangri í jafnréttismálum. Ég tel, þrátt fyrir þau varnaðarorð sem ég hef heyrt hér frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að það sé reynandi (Forseti hringir.) að prófa þetta.