135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:08]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er ekki jafnrétti á Íslandi, a.m.k. ekki á milli kynjanna. Það er nóg að fara á aðalfund Seðlabanka Íslands til að sjá það. Ég hef oft notað hann sem mælikvarða á hvort eitthvað miði í jafnréttisátt. Mér fannst í hittiðfyrra að þar væru eilítið fleiri konur, ætli þær hafi ekki verið tíu, en árið 2007 fækkaði þeim aftur. Ég held því að lítið hafi unnist í jafnréttinu. Það hefur mjög lítið áunnist frá kvennafrídeginum og það ætti að hreyfa við hörðustu baráttumönnum um jafnrétti kynjanna. Þeir ættu að staldra við og spyrja hvort eitthvað sé að baráttuaðferðunum.

Svo má spyrja: Er ekki í lagi að hafa misrétti? Ég held að það sé alls ekki í lagi. Það er ekki í lagi vegna réttlætis. Við viljum að fólk sé ráðið eftir hæfileikum en ekki eftir annarlegum sjónarmiðum, hvort sem eru karlar eða konur. Það er líka tap þjóðfélagsins að hæfasti einstaklingurinn sinni ekki hverju starfi. Það er tap atvinnulífsins, tap fyrirtækjanna og einstaklinganna sem fara halloka. Það sem er kannski verst í því þegar fólk er ekki ráðið eftir hæfileikum er áhugaleysi viðkomandi starfsmanns, starfsleiði og kulnun í starfi eins og menn hafa kallað. Það er mjög alvarlegt þegar starfsmaður uppgötvar, hvort sem er karl eða kona, að hann á enga möguleika á frama.

Svo kann maður að spyrja: Hvernig stendur á því að fyrirtækin ráða ekki hæfasta fólkið? Hvernig stendur á því? Vilja þau ekki græða? Er ekki nógu mikil krafa um arðsemi? Ég get svo sem skilið það hjá opinberum fyrirtækjum því að samkvæmt eðli sínu vilja þau ekki græða, ekkert endilega. Þau eru ekki endilega að hugsa um hag skattgreiðenda alla daga sem eiga þau og borga. En þegar kemur að einkafyrirtækjum þá skil ég ekki af hverju þau ráða ekki hæfasta fólkið. Það skyldi ekki vera að einhverjar aðrar ástæður búi á bak við það, t.d. fordómar karla gagnvart konum, fordómar kvenna gagnvart konum og fordómar kvenna gagnvart sjálfum sér? Ég held að menn ættu að skoða það sérstaklega hvernig stendur á því að konur sækja ekki nógu mikið fram, eru nógu grimmar í því að ná frama, skipta um starf o.s.frv. Getur verið að skólakerfið bregðist í að þjálfa ungmenni, kannski sérstaklega konur, í að koma fram? Það er eitthvað sem við þurfum að skoða.

Varðandi mælinguna á jafnrétti þá eru tekin sambærileg störf og skoðað hvort fólk sé með sömu laun fyrir sömu störf. En það segir ekki neitt ef konur eru allar í láglaunastörfunum og karlarnir allir í hálaunastörfunum, allt saman slétt og fellt og allar konurnar með jafnhá laun, jafnlág laun sín á milli og allir karlarnir með jafnhá laun sín á milli fyrir miklu betri störf, hærri embætti. Það segir ekki nokkurn skapaðan hlut um jafnréttið. Mælingin getur því verið skökk.

Í umræðunni í félagsmálanefnd barðist ég fyrir því að ná fram ákveðnum ákvæðum um vottun. Það er til stofnun sem heitir Löggildingarstofa og hún löggildir vottunarstofur. Það er til vottun sem vottar mál og vog á bensínstöðvum o.s.frv. og víðar í verslunum, það eru til vottunarstofur sem votta umhverfismál og vottun um jafna staðla við framleiðslu, þ.e. ISO-staðla. Hvers vegna skyldum við ekki láta okkur dreyma um vottun á jafnrétti? Hvers vegna skyldum við ekki láta okkur dreyma um að slíkt verði til? Ég treysti opinberum aðilum til að búa til slíkt kerfi að hægt sé að votta jafnrétti nákvæmlega eins og umhverfismál og framleiðslu á vörum.

Það var mikið tekist á um þessi mál. Ég verð að segja eins og er, að ég tapaði því máli. Inn kom frekar bragðlaust ákvæði um að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að sjá til að þróað yrði sérstakt vottunarkerfi. Það má vel vera að eitthvað komi út úr því á næstu árum, ég skal ekki útiloka það. Það kemur bara í ljós. En það var greinilegt í vinnu nefndarinnar að það er djúp og mikil tortryggni á milli femínista annars vegar, kvennafræðinga úr Háskólanum og fræðimanna á þessu sviði og hins vegar atvinnulífsins. Hvor aðilinn grunar hinn um græsku og þetta er mjög djúpstætt. Kvennafræðingana grunar að atvinnulífið vilji endilega klekkja á konum. Ég veit ekki af hverju það ætti endilega að vilja klekkja á konum. En atvinnulífið grunar femínista um að vilja fá upplýsingar á upplýsingar ofan og drekkja fyrirtækjunum í kröfum um að upplýsa um þetta og hitt, stýra ákvörðunum og jafnvel gera ómögulegt að reka fyrirtækin.

Þetta fannst mér koma fram hjá þeim sem komu fyrir nefndina og mér finnst oft bera á mikilli vanþekkingu á atvinnulífi og rekstri fyrirtækja, t.d. hvað það er erfitt, herra forseti, að finna réttlát laun að teknu tilliti til menntunar, reynslu, snilli, dugnaðar o.s.frv. Það eru svo mörg atriði sem koma inn að það er nánast útilokað að finna laun sem allir aðilar eru sáttir við eða launamun milli tveggja einstaklinga. Mér fannst lítill skilningur á vanda fyrirtækjanna við að greiða réttlát laun og byggja upp mannauð því að það er mesti auður fyrirtækja. En atvinnulífið er þó farið að uppgötva að það er mesta auðlegð fyrirtækjanna.

Fyrirtækin óttast fjarstýringu og innantóma skriffinnsku þannig að fyrirtækin geti ekki sinnt því að framleiða vöru og þjónustu fyrir þjóðfélagið, að þau verði upptekin af því að framleiða gögn og jafnréttisáætlanir. Þetta er það sem þau óttast. Í framhaldi vaknar spurningin: Veldur hver á heldur, hvernig verður framkvæmd laganna? Hver er afstaða ráðuneytisins, gætir það þess að fara mildilega að mönnum eða verður farið fram með offorsi? Þar kemur aftur upp tortryggni milli aðila. Atvinnulífið hreinlega óttast framkvæmd laganna. Reyndar voru í nefndinni ýmis ákvæði milduð mjög mikið.

Ég bendi á það, herra forseti, að allir geta stofnað fyrirtæki og greitt há laun og jöfn laun og gætt jafnréttis kynja sem og fólks almennt. Þetta er það sem hver og einn einasti maður getur gert. Af hverju gera menn það þá ekki, þeir sem telja að ekki sé jafnrétti í atvinnulífinu? Ég bara skora á þá að stofna fyrirtæki og framkvæma hugsjónir sínar á þeim vettvangi, ef það er svona auðvelt.

Ég vonast til að innan ekki langs tíma verði tekin upp jafnréttisvottun þannig að fyrirtæki geti skreytt sig með því að vera umhverfisvottuð, með góða staðla um jafna framleiðslu og þjónustu og vottað sé að þau gæti jafnréttis.