135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:24]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að sjálfsögðu sama fyrirbærið, þátttaka kvenna í stjórnmálum og þátttaka kvenna í atvinnulífinu. Ég held að það sé ekkert innan stjórnmálaflokkanna sem hindri konur í því að sækja fram. En það virðist einhvern veginn vera að kjósandinn, sem eru 50% konur, gjarnan pínulítið meira, velji ekki konur og þá kann maður að spyrja sig: Hvernig stendur á því? Er það ekki líka rannsóknarefni? Ég held að það sé mjög margt sem er óleyst og mér finnst að 30 ára reynsla manna af kvennabaráttunni ætti að velta þeirri spurningu upp hvort baráttan sé háð á réttum nótum, hvort það sé svona mikið atriði að leggja áherslu á jafnréttisáætlanir, jafnréttis þetta, skriffinnsku þetta og skriffinnsku hitt, í staðinn fyrir að kanna og skoða hvernig maður rekur fyrirtæki. Ekki að skoða það ofan frá, hvernig getum við keyrt jafnréttið ofan í kokið á atvinnulífinu heldur hvernig er búið að umhverfi fyrirtækja þannig að þau vilji velja hæfasta fólkið í hvert einasta starf. Það er ekki bara misrétti milli karla og kvenna, það er líka misrétti milli fólks. Það er mörg kona sem hefur orðið að lúta í lægra haldi fyrir annarri konu sem var systir eða frænka eða eitthvað slíkt. Það er líka margur karlmaðurinn sem hefur þurft að lúta í lægra haldi fyrir öðrum óhæfari karlmanni sem var frændi, í réttum flokki eða eitthvað slíkt. Þetta er því ekki bara misrétti á milli kynjanna þótt það komi fram þannig. Ég held að þetta sé misrétti á milli fólks.