135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:26]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér núna að tala um jafnrétti milli kynja, a.m.k. flest, og við styðjumst við hlutfallstölur þar sem það er alveg ljóst að konur hafa náð slakari árangri en karlar á mjög mörgum sviðum en þær standa betur á ýmsum sviðum. Ég vil nefna hér samvistir við börn í fjölskyldum. Þar hafa konurnar vinninginn ef svo má að orði komast en karlarnir hafa betri aðkomu að því með feðraorlofi sem framsóknarmenn voru í fararbroddi við að koma á á sínum tíma.

Ég kann ekki við þann tón sem kemur fram í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals, að þetta sé einhvern veginn konunum að kenna. Ég kann ekki við þann tón. Hv. þingmaður segir að það sé ekkert innan stjórnmálaflokkanna sem hindri konur í að ná árangri. Ég er algerlega ósammála þessu. Það er mjög margt innan stjórnmálaflokkanna sem hindrar konur í að ná árangri. Ef svo væri ekki þá hefðu þær náð meiri árangri. Það er alveg á hreinu. Ég kann ekki við þennan tón sem er gefinn út í samfélagið með svona yfirlýsingum að þetta sé á einhvern hátt konum að kenna, þær hafi ekki náð nægilegum árangri varðandi hin ýmsu mál, völd, laun, betri stöðu gagnvart ofbeldi o.s.frv. Þetta vandamál er allt annars eðlis en að það sé konum að kenna.