135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:27]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var í rauninni ekki að kenna einum eða neinum um neitt. Ég var að segja að eftir 30 ára mislukkaða jafnréttisbaráttu ættu menn að fara að skoða hvort það séu einhverjar aðrar ástæður. Ég nefndi þetta sem dæmi um hugsanlegar ástæður. Það getur vel verið að þær séu einhverjar aðrar. Ég nefndi t.d. líka fordóma karlmanna gagnvart konum, ég nefndi það. En það skyldi þó ekki vera líka og það mætti gjarnan skoða betur hvort konur hafi ekki fordóma gagnvart sjálfum sér. Mjög margt fólk, bæði karlar og konur, hefur fordóma gagnvart sjálfu sér og treystir sér ekki í ýmislegt, slíkt er ekki bundið við konur. En það getur vel verið að þetta sé meira hjá kvenkyninu, það getur vel verið segi ég, að hér sé hægt að leita að einhverri skýringu. En maður læknar ekki sjúkdóminn, herra forseti, nema vita hver hann er. Það þýðir ekkert að fara í hjartauppskurð á nýrnasjúklingi, það er a.m.k. mjög slæmt. Maður þarf að vita hver sjúkdómurinn er. Hver er ástæðan fyrir því misrétti sem er til staðar og mér finnst kristallast í aðalfundi Seðlabankans, svo ég nefni hann í þriðja skipti?