135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á svæðisbundið misrétti og það snertir það sem ég nefndi í 1. umr., að frumvarpið bannaði ekki misrétti milli fólks af sama kyni. Ég vil bæta því við að aldursbundið misrétti er greinilega í gangi í þjóðfélaginu. Þeir sem komnir eru yfir fimmtugt eiga erfitt með að fá störf og þurfa að sætta sig við lægri laun en þeir sem yngri eru. Það er því heilmikið misrétti í gangi sem frumvarpið tekur ekki á.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki eins og sumir að það mundi þynna lögin ef menn vikju frá því að ræða bara um misrétti milli kynjanna og færu að tala um misrétti milli fólks af ýmsum toga, bæði svæðisbundið misrétti sem er greinilega til staðar, og eins aldursbundið misrétti sem einnig er til staðar?

Svo fannst mér athyglisverð umræðan um kynbundið ofbeldi og vil spyrja hv. þingmann að því hvað hann telji vera tákn eða merki frá lagasetningunni til ungra drengja sem geta ekkert að því gert að þeir eru karlmenn? Þeir fá í rauninni signal um það frá löggjafanum að þeir séu mjög ofbeldishneigðir.