135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrri spurninguna finnst mér það ekki þynna málið að taka á misrétti víðar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Mér finnst það styrkja málið og átta mig ekki á því hvernig menn geta komist að þeirri niðurstöðu að skilja eigi ákveðna hluta misréttisins eftir og með hvaða rökum þá. Er það vegna þess að mannafla skortir til að fylgja því eftir eða er ekki mögulegt að gera það? Ég held ekki, ég get ekki fallist á það, virðulegi forseti.

Samkvæmt frumvarpinu sýnist mér, ef ég skil það rétt, að karlmaður sem vinnur starf á landsbyggðinni og er með lægri laun en kona sem vinnur sama starf á höfuðborgarsvæðinu — ég sé ekki annað en að frumvarpið geri ráð fyrir að það sé í lagi af því að þau eru ekki í sama sveitarfélagi. Kannski er það ekki svo en svona dæmi eru til þó að hin séu mun algengari, að mismunun sé innbyrðis hjá hvoru kyni fyrir sig eftir búsetu. Það finnst mér líka vera misrétti sem engin ástæða er til fyrir Alþingi að láta kyrrt liggja. Af hverju ætti Alþingi að láta sem það misrétti sé þannig að ástæða sé til að bregðast við því?

Varðandi síðari spurninguna heyrði hv. þingmaður vangaveltur mínar. Mér finnst þetta koma fram í textanum. Ég vona að það sé nú ekki meiningin hjá frumvarpshöfundum eins og ég lagði út af. Mér finnst þó ansi mikið sagt að setja í löggjöf texta sem beinlínis vísar til þess að karlmenn séu ofbeldishneigðir og að sérstaklega þurfi að bregðast við því. (Forseti hringir.) Mér finnst það bara ansi mikið, virðulegi forseti.