135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[17:02]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil málið á þann veg að samanburður á launum verði innan fyrirtækja. Fyrirtækið verður að gera grein fyrir því að það borgi sömu laun fyrir sömu vinnu innan fyrirtækisins. Þar með kemur landsbyggðin inn í umræðuna. Ekki þarf sérstakar kannanir til að kanna þann þátt utan þess sem kannað er hjá viðkomandi fyrirtæki gegnum jafnréttisáætlun og launastefnu þess og framkvæmd hennar.

Varðandi Jafnréttisráðið þá lít ég þannig á, að með nýju lögunum, ef frumvarpið verður samþykkt eins og það er núna, verði skilgreining á því hvernig standa skuli að skipun þar ekki sett inn í öll lög heldur gildi hið almenna ákvæði um allar tilnefningar, einnig í Jafnréttisráð. Þannig vil ég túlka þetta.

Ég hef aldrei skilið kynbundið ofbeldi á þann veg að það varði einungis ofbeldi karla gegn konum, þó svo megi skilja af skýringum í athugasemdum við greinina. (Forseti hringir.)