135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[17:32]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við erum vissulega ósammála um þetta sjónarmið, að einstakir stjórnmálamenn séu þess umkomnir að hafa vit fyrir kjósendum og leiðrétta niðurstöður þeirra. Það er þekkt, enda vísa ég í ýmis prófkjör þar sem niðurstaðan hefur verið leiðrétt og úrslitum eða niðurstöðu stillt upp í samræmi við reglur sem menn hafa sett sér, sem endurspegla ekki val kjósenda í prófkjörinu. Sérstaklega er þetta áberandi hjá Samfylkingunni. Til eru mýmörg dæmi um að úrslit hafi verið túlkuð á annan veg en atkvæðafjöldi gefur til kynna.

Þegar ráðherra skipar og hann biður um tilnefningu frá stjórnmálaflokkunum og biður um tvö nöfn, einn af hvoru kyni, er valdið í hans höndum að ráða því hver er valinn fyrir hönd viðkomandi flokks. Fyrsta valið hefur auðvitað áhrif á það sem á eftir kemur. Ef ráðherrann velur konu frá Samfylkingu þá væntanlega velur hann karl frá Sjálfstæðisflokki. Ráðherra ræður þessu því út í gegn og mér finnst það óeðlilegt. Mér finnst að flokkurinn eigi að ákveða það, ef honum er á annað borð boðið að skipa fulltrúa sinn til þess að taka þátt í nefndarstarfi. Hann ætti að ráð því. Ég tel enga þörf á því að ráðherra sé yfirdómari í þeim efnum.