135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

56. mál
[17:34]
Hlusta

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir frumvarpi til laga um breytingu á fæðingar- og foreldraorlofslögum, nr. 95/2000.

Það er svolítið kaldhæðnislegt en líka viðeigandi að það skuli koma í minn hlut að mæla fyrir þessu máli. Ég sit á þingi sem varaþingmaður hv. 4. þm. Reykv. n., Katrínar Jakobsdóttur, sem er einmitt í fæðingarorlofi eftir að hafa eignast son á gamlársdag. Meðflutningsmenn málsins eru hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Atli Gíslason.

Um er að ræða breytingartillögur við þrjár greinar laganna sem allar miða að því að fylla upp í glufur og sníða af lögunum annmarka sem telja má óréttláta. Tillögurnar byggja á þeirri meginhugsun að festa í sessi rétt barna til samvista við foreldra eða foreldri.

Gildandi lög miðast við að tryggja barni samvistir við báða foreldra á fyrstu mánuðum í lífi þess. Þó nýtir umtalsverður hópur forsjárlausra foreldra ekki rétt sinn til fæðingarorlofs sem verður til þess að börn þeirra njóta í skemmri tíma samvista við foreldri en börn þeirra foreldra sem báðir nýta rétt sinn. Þarna skapast misræmi sem leiðir til þess að börn einstæðra foreldra eiga á hættu að njóta minni réttinda en börn hjóna og sambúðarfólks.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þetta misræmi verði leiðrétt þannig að það foreldri sem fer með forsjá geti sótt um sérstakan aukastyrk. Þannig eru réttindi barnanna fest í sessi og löggjöfin löguð að þeim kalda veruleika sem því miður blasir við mörgum börnum einstæðra foreldra eftir að sex mánaða fæðingarorlofi lýkur.

Í þessu sambandi má benda á að það er ekki fordæmalaust að sérúrræðum sé beitt til að tryggja réttindi barna einstæðra foreldra. Í Noregi er ekki ósvipuð fæðingarorlofslöggjöf og hér á landi að því leyti að hluti fæðingarorlofs er eyrnamerktur föður og hluti merktur móður. Um þetta er nánar fjallað í greinargerð með frumvarpinu.

Annar liður breytinganna lýtur að 13. gr. laganna þar sem orðunum „tvö tekjuár“ í 2. mgr. verður skipt út fyrir „tvö ár“. Með lagabreytingu árið 2004 var tímabilið sem miðað er við við útreikning tekna í aðdraganda fæðingarorlofs lengt úr einu ári í tvö, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Með því að hafa þetta tvö tekjuár en ekki bara tvö ár er hins vegar skapaður talsverður aðstöðumunur. Kona sem fæðir barn í desember 2007 fær greiðslur sem miðast við tekjur hennar árin 2005 og 2006 en kona sem fæðir barn í janúar 2008 fær greiðslur sem miðast við tekjur árin 2006 og 2007.

Hér geta örfáir klukkutímar til eða frá skapað talsvert ójafnræði milli fólks eftir því hvorum megin áramóta það eignast barnið. Þessi munur á viðmiðunartímabilum getur reynst afdrifaríkur þar sem fólk á barneignaaldri er oftar en ekki á uppleið í tekjum, t.d. vegna þess að það lýkur námi og hefur störf á vinnumarkaði.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að þetta ójafnræði verði leiðrétt með því að miða greiðslur við tvö ár fyrir fæðingu barns, í stað tveggja tekjuára.

Í 19. grein laganna um fæðingar- og foreldraorlof segir orðrétt um lögheimilisskilyrði námsmanna, með leyfi forseta:

„Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.“

Í þeim tilfellum þar sem foreldri í hjúskap hafa flutt lögheimili tímabundið til útlanda vegna náms annars þeirra en hitt stundar fjarnám við íslenskan háskóla, hefur Fæðingarorlofssjóður túlkað lögin á þann veg að réttur þess foreldris sem stundar nám á Íslandi falli niður. Því kann það að fara svo að móðir, sem fæðir barn sitt í landi sem hún á lögheimili í vegna náms maka síns þar, missi rétt til fæðingarstyrks frá Fæðingarorlofssjóði. 3. gr. frumvarpsins er ætlað að koma í veg fyrir þetta og tryggja báðum foreldrum eðlilegan fæðingarstyrk þegar svona stendur á.

Frá því að núgildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi hefur reynslan leitt í ljós að þar eins og í annarri löggjöf má finna glufur sem koma í veg fyrir að þau nái fyllilega tilætluðum árangri. Með þessum tillögum er leitast við að fækka þessum agnúum og er það von flutningsmanna að full samstaða myndist á Alþingi um að styðja þetta sanngirnismál.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og til félags- og tryggingamálanefndar.