135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

56. mál
[17:40]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég óska hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur til hamingju með glæsilega flutta jómfrúrræðu.

Hér er til umræðu frumvarp til laga frá þremur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um breytingar á lögunum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.

Eins og flutningsmenn nefna í greinargerð frumvarpsins, er ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um lengingu fæðingarorlofsins í áföngum á kjörtímabilinu. Þess vegna leggja flutningsmenn ekki til frekari breytingar á lögunum að sinni, ekki aðrar en þær sem koma fram í þessu frumvarpi, en þeir boða það jafnframt að þeir muni fylgjast vel með framgangi þessara mála.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur greint frá því að hún sé með fæðingarorlofsmálin til skoðunar í ráðuneyti sínu, bæði hvað varðar boðaða lengingu og því að taka á ýmsum agnúum sem fram hafa komið á framkvæmd laganna. Ráðherra mun kynna þá vinnu í ríkisstjórn á vormánuðum að mér skilst.

Ég vil því í upphafi, áður en ég tek efnislega afstöðu til nokkurra þátta þessa máls, taka það fram að ég tel rétt að veita hæstv. ráðherra ráðrúm til þess að kynna tillögur sínar áður en farið verður í breytingar á lögunum. Þess vegna mun ég ekki styðja það frumvarp sem hér er til umræðu.

Þessi ágætu lög sem brátt verða átta ára gömul voru mikið framfaramál. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé eitt mikilvægasta fjölskyldu- og jafnréttismál sem sett hefur verið fram fyrr og síðar. Um þetta mál var og er mikil sátt meðal allra stjórnmálaflokka á Alþingi og það var á sínum tíma unnið í mjög góðu samstarfi, bæði aðila í stjórnkerfinu og á vinnumarkaðnum og hér á Alþingi að sjálfsögðu.

Fyrir setningu laganna voru þessi mál afar flókin og á forræði margra í samfélaginu. Þá voru mismunandi lög, reglugerðir og kjarasamningar sem giltu um þessi mál. Þrjú ráðuneyti komu að þeim, fjármálaráðuneytið sem vinnuveitandi opinberra starfsmanna, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið með greiðslurnar frá Tryggingastofnun ríkisins og félagsmálaráðuneytið sem var og er með forræði yfir vinnumarkaðsmálunum.

Vandamálin voru óteljandi og virtust allt að því óleysanleg. Það var mismunað á grundvelli kynferðis. Það var mismunur á kjörum fólks hvort heldur það var í vinnu hjá því opinbera eða á almennum markaði. Svo var einnig mismunun á réttindum hvort heldur þú varst karl eða kona í vinnu í opinberri þjónustu og svo mætti lengi telja. Þetta var afar mikið flækjustig sem þarna var á ferð.

En sem sagt, með fyrrnefndum lögum var þessi hnútur leystur og við þekkjum öll söguna. Nú eiga bæði karlar og konur sama rétt til fæðingarorlofs óháð því hvort þau starfa á opinberum eða almennum vinnumarkaði eða eru sjálfstætt starfandi. Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði og sameiginlega eiga foreldrar þrjá mánuði til viðbótar. Sjálfstæði rétturinn er ekki framseljanlegur, það er eitt af þeim atriðum sem verið er að gera við athugasemdir við hér en foreldrar ákveða sjálfir skiptingu hinna sameiginlegu þriggja mánaða.

Markmið laganna var að tryggja barni samvistir við föður og móður og því var líka ætlað að gera jafnt körlum sem konum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þarna var um að ræða hvort tveggja, fjölskyldu- og jafnréttismál. Með þau sjónarmið í huga var ákveðið að skilyrða, til byrjunar að minnsta kosti, rétt hvors foreldris en leyfa ekki framsal þessa sjálfstæða réttar. Þó er slíkt framsal leyft eða gerð undantekning á því þegar um andlát annars hvors foreldris er að ræða, samanber 7. mgr. 8. gr. laganna.

Um þessi framsalsatriði hafa verið skiptar skoðanir, bæði út frá sjónarmiði forsjárlausra foreldra og einstæðra foreldra sem hér hefur komið fram en einnig út frá því sjónarmiði að það eigi ekki að vera löggjafans eða opinberra aðila að hafa afskipti af því hvernig foreldrar ákveða að skipuleggja sitt fæðingarorlof sín á milli. Lögð var á það áhersla í upphafi að þetta atriði yrði endurskoðað þegar reynsla væri komin á lögin. Við endurskoðun þeirra árið 2004 var ekki talið tímabært að hrófla við því.

Ég mun persónulega fagna þeim degi þegar við setjum það í lög að fæðingarorlof sé ákveðið langt, hversu margir mánuðir sem við komum okkur saman um, og að foreldrar ráði því sjálfir sín á milli hvernig það skiptist á milli þeirra. Þá held ég að við séum komin að þeim tímapunkti að við höfum náð þeim árangri í jafnréttisbaráttunni sem ég mun fagna. Ég held hins vegar, því miður, að við séum ekki alveg komin að þeim tímapunkti enn þá og þess vegna tel ég ekki ráðlegt að breyta þessu enn sem komið er.

Við rannsóknir á töku fæðingarorlofsins hefur komið fram að mæður taka yfirleitt lengra og samfelldara fæðingarorlof og þær nota yfirleitt stærstan hluta sameiginlegu mánaðanna þriggja. Karlar hafa mikið notað sinn sjálfstæða rétt og er það einn af stóru sigrunum í þessu góða máli. Ef leyft yrði að framselja réttinn þá tel ég víst að það hefði einungis í för með sér lengingu fyrir mæður og væri því að mínu mati skref aftur á bak með tilliti til þessara jafnréttismarkmiða.

Varðandi þau sjónarmið sem eru til umfjöllunar í 1. gr. frumvarpsins sem hér er til umræðu, þá get ég staðfest það vegna þess að ég tók þátt í starfi við samningu frumvarpsins á sínum tíma, sat í nefndinni, að við samningu þess frumvarps sem síðar varð að lögum, þá voru uppi miklar vangaveltur um stöðu einstæðra foreldra. Sú umræða kom einnig fram í félagsmálanefnd Alþingis og það er t.d. vikið að henni í upprunalega nefndarálitinu og hún hefur alltaf komið upp með reglulegu millibili frá gildistöku laganna.

Í upphafi, eins og fram hefur komið, var litið svo á að jafnréttissjónarmiðin ættu að vega þyngra. Það er áherslan á að konur og karlar eigi að bera jafna ábyrgð á umönnun barna sinna og njóti sömu tækifæra til að taka þátt á vinnumarkaði. Þessi sjónarmið höfðu vinninginn, ef svo mætti að orði komast. Til að koma til móts við foreldra sem búa ekki saman, sem og rétt barnanna í þeim tilvikum, þá var lagt til að veita forsjárlausum foreldrum rétt til fæðingarorlofs með samþykki þess foreldris sem með forsjána fer. Þetta var í mínum huga mikilvægt atriði einmitt til þess að koma á og stuðla að jafnri foreldraábyrgð.

Ég er því ekki hlynnt þeirri breytingu sem lögð er til í 1. gr. þess frumvarps sem við erum að ræða núna þrátt fyrir að ég hafi ákveðinn skilning á sjónarmiðum einstæðra foreldra, sérstaklega út frá hagsmunum barnsins sem framsögumaður rakti hér vel og ítarlega. Ég teldi að markmiðum laganna um jafna foreldraábyrgð yrði stefnt í hættu ef opnað yrði á yfirfærslu réttinda milli foreldra, enn sem stendur. Í lögunum eins og þau eru núna er hvatning til beggja foreldra, hvort sem þau fara með forsjá eða ekki, til þess að verja tíma með barni sínu. Ég tel afar mikilvægt að hafa þá hvatningu inni þar sem ég tel að það hljóti á endanum að vera mestu hagsmunir barnsins að njóta samvista bæði við föður sinn og móður.

Það er nefnilega þannig að komi til þess að foreldri með forsjá geti fengið aukið fæðingarorlof nýti forsjárlausa foreldrið ekki rétt sinn eins og mælt er fyrir um í frumvarpinu, þá hlýtur það að skapa aukna hættu á því að fyrrnefnda foreldrið veiti ekki áðurnefnt samþykki sem núna er skilyrði þess að forsjárlausa foreldrið fái orlof. Hættan yrði því sú að það foreldri sem með forsjána fer veiti ekki samþykkið til þess að hitt geti nýtt sér fæðingarorlofið. Mér finnst þetta vera mikilvægt atriði.

Með því fyrirkomulagi sem lagt er upp í lögunum, þá er verið að leggja áherslu á ábyrgð foreldra, hvort sem þeir fara með forsjána eða ekki, ábyrgð sem felst í því að sinna börnum sínum á fyrstu árunum og gefa sér tíma til þess að vera með þeim. Margir álíta að þarna sé verið að höfða sérstaklega til feðra þar sem það er staðreynd í íslensku samfélagi að mikill meiri hluti forsjárlausra foreldra eru feður og ég tel þetta afar mikilvægt atriði til þess að tryggja þetta áfram, að stuðla að auknum rétti þessara forsjárlausu sem vilja eiga samvistir við börnin sín.

Ég væri hins vegar alveg tilbúin að skoða þannig breytingar að yfirfærsla réttarins yrði heimiluð, t.d. í tilvikum þegar þannig háttar um að öðru hvoru foreldri barns er sannarlega fyrirmunað að nýta réttinn, til að mynda vegna sjúkdóma eða sjúkrahússvistar eða vegna afplánunar refsivistar á því tímabili sem heimilt er að taka fæðingarorlofið.

Virðulegi forseti. Í 2. og 3. gr. frumvarpsins er einnig fjallað um atriði varðandi framkvæmd laganna. Í 2. gr. er fjallað um viðmiðunartímann sem lagður er til grundvallar við útreikninginn á greiðslunum í fæðingarorlofi. Ég get fallist á sjónarmið flutningsmanns að eins og viðmiðunartíminn er í dag þá er foreldrum mismunað eftir því hvenær á árinu barnið fæðist. Ég teldi rétt að skoða þessa framkvæmd með gagnrýnina að leiðarljósi og líka út frá þeim sjónarmiðum sem þurfa að koma til álita eins og hver kostnaðurinn er og hugsanlegum möguleika á misnotkun hjá þeim aðilum sem hafa tök á því að hafa áhrif á tekjur sínar á því tímabili sem haft er til viðmiðunar.

Varðandi 3. gr. frumvarpsins sem fjallar aðallega um foreldra þar sem annað foreldrið er í fjarnámi þá tel ég þetta vera atriði sem ber að skoða. En ég vísa enn, eins og ég gerði í upphafi, í vinnuna sem fram fer innan ráðuneytisins. Við fyrstu sýn finnst mér þetta þó vera orðnar mjög sértækar aðstæður sem þarna er verið að fjalla um. Ég spyr mig hvort þetta eigi heima í lagatextanum sjálfum eða hvort það færi betur að þetta væri atriði sem til að mynda úrskurðarnefnd fengi inn á sitt borð og hefði tækifæri til að meta. Því þetta virkar þannig að þetta fer eftir aðstæðum fólks.

En til að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, varðandi þetta atriði og önnur í frumvarpinu, þá vísa ég enn og aftur í það sem ég sagði í upphafi um það að gefa ráðherra ráðrúm til þess að fara yfir þessi framkvæmdaratriði og koma með heildstæðar tillögur hvað þau varðar og þær ábendingar sem fram koma í þessu frumvarpi eru ágætt innlegg í þá vinnu og þá umræðu.