135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

56. mál
[17:53]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að óska hv. 4. þm. Reykv. n., Steinunni Þóru Árnadóttur, til hamingju með jómfrúrræðuna. Hún byrjar ekki á verri endanum, að taka hér fyrir þau ágætu lög sem eru fæðingar- og foreldraorlof og leggja fram hugmyndir um að breyta þeim. Hún talar að vísu fyrir 1. flutningsmann, Katrínu Jakobsdóttur, sem flytur þetta frumvarp og hafði um það ágæta framsögu.

Það má segja að það sé skemmtileg tilviljun, eða eigum við kannski að segja kaldhæðnislegt eins og framsögumaður sagði í máli sínu, að það skuli vera Katrín Jakobsdóttir sem flytur þetta mál þegar hún einmitt lendir í þeirri stöðu sem verið er að reyna að leiðrétta með þessu frumvarpi, að fæða barn sitt rétt fyrir áramót og munar þar nokkrum dögum um hvaða viðmiðunargrundvöllur verður notaður undir fæðingarorlof hennar, þ.e. af því að barn hennar fæddist fyrir áramótin, en ég óska henni innilega til hamingju með það, en þá eru viðmiðunartekjurnar notaðar fyrir árin 2005 og 2006, þær tekjur sem hún hafði þá í staðinn fyrir að nota viðmiðunartímann 2006–2007 sem gefa henni þá meira fæðingarorlof ef barn hennar hefði fæðst nokkrum dögum síðar eða eftir áramótin. Þetta er náttúrlega í hnotskurn gallinn á þessum lögum.

Ég vil fara nokkrum orðum um efnisatriði þessa frumvarps og segja það að í stærstum dráttum er ég sammála þeim ábendingum og athugasemdum sem komu fram hjá hv. 9. þm. Suðvest., Ragnheiði E. Árnadóttur, og vil fara nokkrum orðum um þær.

Í fyrstu greininni segir, með leyfi forseta:

„Ef forsjárlaust foreldri nýtir ekki rétt sinn getur það foreldri sem fer með forsjá barnsins sótt um sérstakan aukastyrk úr fæðingarorlofssjóði. Fjárhæð styrksins skal svara til fæðingarorlofs í þrjá mánuði.“

Við fyrstu sýn virðist þarna vera réttlætismál á ferðinni sem ástæða er til þess að skoða. En við hljótum að verða að horfa á allar breytingar á fæðingarlöggjöfinni út frá þeim sjónarhóli að það sé hvati fyrir báða foreldra til þess að taka fæðingarorlof. Það er eiginlega stærsta uppleggið í fæðingarorlofslögunum, þessi innbyggði hvati sem er í þeim að feður nýti sér einnig fæðingarorlofið. Þarna getur falist ákveðin hætta í því að þetta gangi gegn þeim markmiðum.

Það var mikil umræða um stöðu einstæðra foreldra þegar þessi lög voru sett og jafna ábyrgð foreldra á umönnun barnsins. Til að koma til móts við foreldra sem búa ekki saman sem og rétt barnanna, þá var lagt til að veita forsjárlausum foreldrum rétt til fæðingarorlofs þegar samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlofið stendur yfir. Slíkt samþykki foreldris sem fer með forsjána leiðir af inntaki forsjár en samkvæmt barnalögum felur forsjá barns í sér rétt og skyldur forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins. Þannig má segja að foreldri sem fer með forsjána hafi að ákveðnu leyti í hendi sér hvort forsjárlaust foreldri geti tekið fæðingarorlof enda þótt foreldri sem fer eitt með forsjá barnsins beri að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema umgengni sé andstæð hag og þörfum barnsins að mati lögmæts stjórnvalds.

Þá kemur þetta kjarnaatriði, að komi til þess að foreldri með forsjá geti fengið aukið fæðingarorlof nýti forsjárlausa foreldrið ekki rétt sinn eins og mælt er fyrir um í frumvarpinu, þá hlýtur að vera aukin hætta á að fyrrnefnda foreldrið veiti ekki áðurnefnt samþykki sitt svo að forsjárlausa foreldrið geti nýtt sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Þarna er ákveðin hætta fyrir hendi sem menn verða að minnsta kosti að hafa í huga þegar þetta ákvæði er skoðað og í þeirri nefnd sem fær þetta til umfjöllunar. Ég er því sammála síðasta ræðumanni, Ragnheiði Árnadóttur, 9. þm. Suðvest., að það beri að fara varlega í þetta ákvæði og skoða það út frá öllum hliðum.

Varðandi 2. gr. frumvarpsins sem ég kom aðeins inn á í upphafi máls míns, þá er þetta stór galli á lögunum. Þetta er galli sem hefur lengi verið talað um og þeir eru ófáir tölvupóstarnir, bréfin og símhringingarnar sem ég hef fengið frá foreldrum sem lenda í því sem ég ræddi í upphafi máls míns að viðmiðunartíminn sem lagður er til grundvallar útreikningi á fæðingarorlofi geti verið tvö til þrjú ár. Þeir sem lenda verst í þessu standa frammi fyrir því að fæðingarorlof er ekki orðið 80% af launum heldur kannski komið niður í 68% með þessum viðmiðunarútreikningum. Það er því sanngirnismál að þetta sé skoðað.

Eins og hv. 9. þm. Suðvest. benti á þá hefur fæðingarorlofið og ágallar þess verið í skoðun í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, m.a. af fulltrúum stjórnmálaflokkanna eftir að sérfræðingar höfðu yfirfarið málið. Þetta er eitt af því sem lagt er til að verði tekið á. Frumvarpið ásamt öðrum breytingum á ágöllum fæðingarorlofslaganna sem við viljum leiðrétta er ekki enn komið til ríkisstjórnarinnar en ég vona svo sannarlega að það geti orðið fyrr en seinna og þá verði hægt að fjalla um það frumvarp það tímanlega á þessu þingi að það geti orðið að lögum.

Án þess að ég vilji upplýsa um efnisinnihald frumvarpsins að því er þetta ákvæði varðar þá gengur sú hugmynd sem uppi er í ráðuneytinu og hefur verið farið yfir af fulltrúum stjórnarflokkanna lengra í því að lagfæra þennan ágalla í frumvarpinu en er í því frumvarpi, þingmannafrumvarpi, sem við fjöllum um hér. Það er því full ástæða til þess, eins og hv. 9. þm. Suðvest. benti á, að bíða þá eftir því að það frumvarp komi inn í þingið og þá er hægt að skoða þessi mál samhliða.

Varðandi 3. gr. þá hef ég ákveðinn skilning á því sem þarna er sett fram. Ef eitthvað er þá finnst mér það ákvæði sem hér er sett fram kannski vera of þröngt. Hér er talað um, með leyfi forseta:

„Í því tilfelli þegar foreldrar í hjúskap hafa flutt lögheimili sitt til útlanda vegna náms annars foreldrisins en hitt stundar fjarnám frá Íslandi, geta þau bæði átt tilkall til undanþágu frá skilyrði um lögheimili hér á landi ef önnur skilyrði greinar þessarar eru uppfyllt.“

Það sem ég hnýt um er orðið að þetta sé bundið við foreldra í hjúskap. Af hverju á að binda þetta við foreldra í hjúskap ef á annað borð á að fara þessa leið og opna fyrir þetta í fæðingarorlofsfrumvarpinu? Af hverju á þetta ekki eins að gilda um sambýlisfólk, að það hafi þennan rétt ef á annað borð er opnað á þetta?

Þetta er sjónarmið sem ég hef skilning á, að ef sambýlisaðilar eða hjón flytja lögheimili sitt til útlanda og annar aðilinn er í útlöndum en hinn stundar fjarnám frá Íslandi, þá er það allsérkennilegt að sá sem stundar fjarnám frá Íslandi af því hann hefur lögheimili sitt erlendis með maka sínum, að hann eigi þá engan rétt og réttur hans sé háður þeim rétti sem gildir þar sem lögheimilið er. Ég hef því ákveðinn skilning á því sjónarmiði sem hér er sett fram og tel að það eigi að hugleiða hvort ekki felist í þessu réttarbót. En það má vel vera, eins og hv. þm. Ragnheiður Árnadóttir benti á, að þetta gæti átt heima í reglugerð en ekki eins og hér er og það þyrfti að skoða. Ef til vill væri rétt að sú nefnd sem fjallar um mál sem eru á einhverjum gráum svæðum mundi skoða hvernig þessu væri haganlegast fyrir komið ef menn á annað borð ná samstöðu um að fara þessa leið. Eins og ég hef lýst hér, virðulegi forseti, þá eru ákveðin rök fyrir því að á þessu ákvæði í 3. gr. sé tekið.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frumvarp. Það fer sína leið í félags- og tryggingamálanefnd og ég ítreka von mína um það að fyrr en síðar getum við séð stjórnarfrumvarp um þetta efni sem verður þá hægt að skoða samhliða og vonandi verður hægt að lögfesta það ef það nær að koma nógu fljótt fyrir þingið nú á vorþinginu.