135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þann heiður að vera sá fyrsti sem spurður er samkvæmt þessum nýju reglum. Það er ákveðinn heiður sem ég þakka fyrir sérstaklega. Ég þakka fyrir þessar fyrirspurnir því að mér finnst mjög mikilvægt að þessi nýju vinnubrögð skapi hér öfluga og mikla þjóðmálaumræðu og að þingið verði sá umræðuvettvangur sem við viljum að það sé. (Gripið fram í: … svara spurningunni.) Eins og hæstv. forseti sagði eru hér allir þingmenn og allir geta tekið til máls.

Til mín var beint tveimur spurningum. Í fyrsta lagi er spurningin um það frumvarp sem ég hef lagt fram um breytingar á skipan hæstaréttardómara. Að sjálfsögðu mun ég beita mér fyrir því að það gangi fram. Sú fyrirmynd sem ég hef í þeim efnum er Hæstiréttur Bandaríkjanna og hvernig skipað er í þann rétt. Í reynd er ekki meira vitnað til annars dómstóls og hefur enginn annar meiri virðingu. Það er mjög mikilvægt að mínu viti að við styrkjum Hæstarétt Íslands, þess vegna hef ég lagt þetta fram og að sjálfsögðu mun ég beita mér fyrir því að málið gangi fram.

Í annan stað er hér spurt um yfirlýsingar setts dómsmálaráðherra í Kastljósi í gær. Um þetta vil ég bara almennt segja: Við hæstv. fjármálaráðherra höfum átt hreinskiptnar og opnar viðræður um þessi mál. Þar hef ég greint honum frá því að ég sé ekki sammála mati hans, ekki sammála því sem fram hjá honum hefur komið enda er stjórnarsamstarfið þannig að þar getur farið fram hreinskiptin og opin umræða. Það er bara heilbrigðisvottorð á samstarfið. Þannig er það og þannig viljum við hafa það. (Forseti hringir.)

Ég vil líka taka skýrt fram að ég þekki ekki frekar en aðrir í þaula það álit (Forseti hringir.) sem fagnefndin gaf til þess að ég geti fullyrt um sjónarmið hans. (Forseti hringir.) Eins og málið lítur út og ég hef greint honum frá er ég ekki sammála mati hans í þessu máli.