135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp sem var reyndar aðeins til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær þegar ég bar fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um embættaveitingar einstakra ráðherra. Í mínu máli kom þar fram sérstök gagnrýni varðandi skipan setts dómsmálaráðherra á héraðsdómara í norðausturumdæmi. Mér finnst eðlilegt að þessari fyrirspurn sé beint til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem sérstaklega hefur beitt sér fyrir umbótum á skipan dómara í landinu. Þó að þar hafi sérstaklega verið talað um hæstaréttardómara er engin vanþörf á að láta það líka eiga við um héraðsdómara.

Þingmaðurinn gerði grein fyrir því að hann hefði átt viðræður við settan dómsmálaráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, um þetta mál og gert honum grein fyrir afstöðu sinni. Hann segir að hann sé einfaldlega ekki sammála niðurstöðu ráðherrans. Það sem eftir stendur er engu að síður hitt að þingmenn stjórnarflokkanna bera ábyrgð á þeim ráðherrum sem hér sitja og stjórnarathöfnum þeirra, að sjálfsögðu. Ráðherra fer ekki fram með neinar ákvarðanir öðruvísi en að hafa til þess stuðning meiri hluta þingsins. Ef fleiri þingmenn Samfylkingarinnar eru ósammála og ósáttir við þessa ákvörðun ráðherra væri auðvitað fróðlegt að vita hvort ráðherrann njóti þá almennt trausts þessara sömu þingmanna til að gegna störfum sínum.

Það er síðan alveg ljóst og kemur fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar að Sjálfstæðisflokknum svíður undan harðri gagnrýni á þá stöðuveitingu sem hér er til umræðu. Það er líka ljóst að valdi ráðherranna eru takmörk sett og ég er þeirrar skoðunar að ómálefnaleg ákvörðun eins og sú sem hæstv. fjármálaráðherra, settur dómsmálaráðherra, tók í þessu máli sé ólögmæt og ógildanleg.

Ég vil svo bara geta þess, hæstv. forseti, að (Forseti hringir.) vegna þeirra ummæla sem féllu hjá hæstv. fjármálaráðherra í Kastljósi er enn frekar ástæða til að (Forseti hringir.) halda áfram með málið á þingi og ég mun gera það fyrir mitt leyti með þingmáli sem ég hef kynnt formönnum þingflokka.