135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:46]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í tilefni þeirra orða sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir viðhafði í upphafi máls síns um að forustumenn stjórnmálaflokkanna hefðu almennt tjáð þá skoðun fyrir hönd flokka sinna að eðlilegt væri að taka upp aðra skipan á embættisveitingum hæstaréttardómara, og þess vegna héraðsdómara, en verið hefur tel ég rétt að lýsa því yfir að ég hef fyrir hönd Frjálslynda flokksins í störfum nefndar um stjórnarskrármálefni lýst þeirri skoðun, m.a. opinberlega á Hótel Loftleiðum á ráðstefnu, að ég teldi að skipan manna í dóm Hæstaréttar ætti að fara fram með samþykki Alþingis og að ráðherrar ættu ekki að koma þar að, það væri sem sagt eðlilegt að einhver nefnd legði dóm á hæfni manna en að öðru leyti kláraði Alþingi málið. Ég hef talið eðlilegt að tveir þriðju alþingismanna væru því sammála.

Það er mjög nauðsynlegt að mínu viti að við komumst út úr þeirri umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu á undanförnum árum, að embættisveitingum í dómskerfinu sé stýrt pólitískt. Þannig hefur umræðan verið og undan því geta sjálfstæðismenn alls ekki vikið sér. Það er hægt að rifja þá umræðu upp langt aftur í tímann að því er varðar skipun í embætti dómara, sérstaklega hæstaréttardómara.