135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:48]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hóf um það hvort rétt væri að breyta þeim reglum sem gilda um skipan dómara get ég sagt fyrir mína parta að ég er í sjálfu sér alveg hlynntur því að þær reglur verði teknar til endurskoðunar, sérstaklega hvað varðar veitingu embættis hæstaréttardómara. Ég hef margoft lýst því yfir, bæði hér og annars staðar, að ég tel óeðlilegt að hæstaréttardómarar sjálfir gefi dómaraefnum sem sækja um starf við réttinn einkunn og hafi um það að segja hverjir eru ráðnir og hverjir ekki. Af því að hv. þingmaður varpaði þeirri spurningu til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar hvort hann væri sammála því að niðurstaða nefndarinnar sem við höfum rætt hér byndi hendur ráðherra eða hvort hann væri sammála því sjónarmiði sem við sjálfstæðismenn höfum sett fram um að hún geri það ekki er fyrir öllu að menn hafi í huga í þessari umræðu að í lögum um dómstóla er hvergi tekið fram að ráðherra skuli við skipan í embætti héraðsdómara fara að tillögum nefndar sem samkvæmt lögum á að fjalla um hæfni umsækjenda um stöðu héraðsdómara. Í reglum sem settar voru á grundvelli laganna segir í 7. gr., með leyfi forseta:

„Umsögn nefndarinnar er ekki bindandi við skipun í embætti héraðsdómara.“

Okkar fremsti stjórnsýslufræðingur, dr. Páll Hreinsson, fyrrverandi forseti lagadeildar og núverandi hæstaréttardómari, skrifaði árið 1994 um þetta grein í afmælisrit Gauks heitins Jörundssonar sem var umboðsmaður Alþingis. Þar fjallar hann um þetta mál og er líklega eini fræðimaðurinn sem hefur gert það. Þar segir prófessorinn, með leyfi forseta:

„Þó að stjórnvaldi sé að lögum skylt að leita sérstakrar umsagnar utanaðkomandi aðila áður en það tekur ákvörðun í máli er umsögnin ekki bindandi fyrir stjórnvaldið við ákvörðun málsins nema svo sé fyrir mælt í lögum.“

Þetta er álit hæstaréttardómarans. Ég las upp (Forseti hringir.) hvaða regla gildir um þessi málefni, þær reglur sem gilda um störf nefndarinnar. Lögin eru alveg skýr, menn geta haft skoðun á því hvort eigi að breyta þeim en þau eru skýr og það er ráðherrann sem fer með veitingavaldið (Forseti hringir.) og þarf ekki að sæta því sem nefndin segir.