135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:50]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Einu sinni enn er til umræðu það mikilvæga mál sem varðar skipan dómara. Einhverra hluta vegna kemur hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nú fram með allt öðrum hætti en á undanförnum árum og einhvern veginn virðist allur vindur úr honum. (Gripið fram í.) Er það sennilega vegna þess að hann er kominn í annað hlutverk. Minnist ég þess oft að hafa séð hann í þessum stóli kraftmeiri en í ræðunni sem hann flutti áðan.

Hér erum við að fjalla um stórt mál, og ekkert gamanmál. Það verður að koma málum þannig fyrir að meiri friður ríki um skipun dómara á Íslandi, hvort sem við erum að tala um hæstaréttardómara eða héraðsdómara. Það er ekki hægt að hafa þennan ófrið. Þetta rýrir stórkostlega álit borgaranna, álit Íslendinga, á dómstólum. Svo leyfir hæstv. fjármálaráðherra sér að segja í viðtali í gær að hafi álit á dómstólunum eitthvað rýrnað sé það út af þessari nefnd sem hafi farið eitthvað fram úr sér. Það er fáránlegt að bera þetta á borð. Það er verknaðurinn sjálfur, gjörningurinn, skipanin, sem gerir það að verkum að fólk er algjörlega gáttað.

Eins fannst mér hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem hér talaði tala með nokkuð öðrum hætti en hann gerði í vetur. Þegar mál hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar var hér til umfjöllunar vitnaði hann fyrst og fremst í Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómara og Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins. Það var línan sem hann hafði í þessu máli og kannski hefur hann þá línu enn. En eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu oftsinnis er það fyrst og fremst gagnrýnivert að mati Styrmis Gunnarssonar ritstjóra að hæstaréttardómarar skuli hafa hlutverk hvað varðar það að meta umsækjendur.

Þetta er ómögulegt (Forseti hringir.) eins og það er og ég vona að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þó að vindurinn sé dálítið úr honum, (Forseti hringir.) standi við það að reyna að koma þessu máli inn í þingið til atkvæðagreiðslu.