135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[14:06]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Vegna orða hv. þingmanns er rétt að geta þess að forseti mun að sjálfsögðu leggja áherslu á að eiga gott samstarf við alla þingmenn og alla þingflokka nú eins og hingað til. Vegna tilvitnunar í ávarp mitt um samstarf við formenn þingnefnda þá háttar svo til að við höfum gert breytingar á þingsköpum. Þær fela m.a. í sér að hægt er að vísa málum til nefndar eftir 2. umr. ef þess er óskað sem ekki hefur verið sjálfgefið áður. Eitt af því sem ræða þarf við formenn nefndanna er hvernig meðferð verður háttað auk þess sem gert er ráð fyrir fjölgun starfsmanna á nefndasviði. Forseti þarf að sjálfsögðu að eiga gott samstarf við formenn nefndanna vegna þeirra breyttu vinnubragða sem ætlast er til að verði á nefndasviðinu.

Í framhaldi af samtölunum er síðan að sjálfsögðu samráðið innan forsætisnefndarinnar þar sem allir flokkar eiga kost á að koma að og eins á vettvangi samstarfs forseta við formenn þingflokka. Ég held því að engin ástæða sé til að hv. þingmenn hafi áhyggjur af því að ekki verði haft gott samráð við þingmenn og þingflokka um þær mikilvægu breytingar sem við höfum gert og ætlum okkur að gera á störfum þingsins til að bæta starf okkar.