135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

samkeppnisstaða hótela og gististaða á landsbyggðinni.

216. mál
[14:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Fjölbreytni í atvinnulífi á Íslandi hefur sem betur fer aukist á síðustu árum. Stöðugt meiri áhersla er lögð á vísindi og nýsköpun og menn eru sem betur fer sífellt að gera sér betur grein fyrir mikilvægi menntunar á öllum sviðum.

Einn vaxtarbroddur íslensks samfélags er ferðaþjónusta. Þar hefur dýrmæt þekking og reynsla byggst upp á liðnum árum. Víða um land hefur ferðaþjónusta verið haldreipi fyrir íbúa. Hún hefur aukið frumkvæði þeirra og vitund um verðmæti landsins fyrir útlendinga og líka fyrir gesti annars staðar á landinu.

Við vitum að íslenskrar vetrarmánuðir eru langir og strangir. Það höfum við fundið vel undanfarnar vikur þar sem ófærð og óveður hafa gert okkur öllum erfitt fyrir, hvað þá þeim sem halda úti hótelum og gististöðum á landsbyggðinni. En með þá vissu í hjarta að senn fari sól að hækka á lofti með vaxandi ferðamannastraumi og því að vonandi fari vetur konungur líka að hljóma spennandi í eyrum ferðalanga hafa þessir atvinnurekendur þreyð þorrann. Þess vegna skýtur það dálítið skökku við að um leið og ferðalangarnir fara að streyma um landið breytast skólar í gististaði út um allar trissur. Ég ímynda mér að það séu leifar gamalla tíma að skólar séu leigðir út til ákveðinna ferðaþjónustuaðila. Það vekur samt upp spurningar um, sérstaklega þegar haft er í huga þá fjárfestingu sem ferðaþjónustuaðilar hafa lagt í, hvort eðlilegt sé að skólar séu nýttir með þessum hætti á sumrin, hvort ekki sé réttara að sleppa slíku. Ef nýting skólanna er undirbúin með öðrum hætti vakna ýmsar spurningar: Hversu langir eru t.d. samningar um leigu skólanna? Hvaða kröfur þurfa viðkomandi aðilar að uppfylla? Er horft til þess hvort einhver önnur gisting sé í boði á viðkomandi svæði? Hefur verið kannað hvort þessi starfsemi hafi áhrif á nærliggjandi þjónustuaðila?

Síðan koma þær spurningar sem mig langar til að bera upp við hæstv. ráðherra iðnaðar og ferðamála, Össur Skarphéðinsson, sem eru þessar:

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir könnun á samkeppnisstöðu hótela og gististaða á landsbyggðinni með hliðsjón af því að ríkið hefur lengi leigt skólahúsnæði á háannatíma til einstakra ferðaþjónustuaðila?

2. Telur ráðherra slík afskipti ríkisins af ferðaþjónustu eðlileg?