135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf á Norðvesturlandi.

314. mál
[14:25]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að flytja til mín fyrirspurn í stað Þórunnar Kolbeins Matthíasdóttur sem sat á þingi fyrir jól. Ég vil líka þakka hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins fyrir þann mikla áhuga sem þeir hafa sýnt á atvinnumálum landsbyggðarinnar og hv. þingmanni sem sérstaklega hefur borið fyrir brjósti atvinnumál í Norðvesturkjördæmi.

Það er rétt, sem fram kemur í aðdraganda fyrirspurnarinnar, að atvinnumálin eru ekki í nógu góðu lagi í kjördæminu. Það er rétt sem hann segir, að þar eru um tveir þriðju þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá konur. Eigi að síður er það þannig, ef maður skoðar atvinnuleysi kvenna í Norðvesturkjördæmi í samanburði við aðra landshluta, að það er meira en á Austurlandi og í Reykjavík en minna en á Suðurnesjunum og Suðurlandi. Ástandið er því alls ekki verst á Norðvesturlandi miðað við landið í heild hvað varðar atvinnuleysi kvenna. Sannast sagna hefur þar, fram undir það síðasta, verið eitthvert besta atvinnuástand á landinu sem verið hefur ákaflega lengi.

Fyrirspurn hv. þingmanns til mín er um hvort ég hafi uppi áform um að beita mér fyrir fjölgun dagvinnustarfa sem henti konum á Norðvesturlandi. Svarið er já. Ég mundi reyndar þiggja öll góð ráð frá hv. þingmanni í því efni. Ég hef þegar gripið til ákveðinna ráðstafana sem segja má að henti sköpun starfa fyrir konur betur en gagnvart körlum.

Ég nefni sérstaklega að í fyrradag skrifaði ég undir vaxtarsamning á Norðurlandi vestra sem er mikilvægur hluti þess svæðis sem fyrirspurnin tekur til. Vaxtarsamningurinn var mikilvægur að því leyti og braut í blað fyrir tveggja hluta sakir. Í fyrsta lagi var sett í hann af hálfu ríkisstjórnarinnar helmingi meira fé en til flestra annarra samninga, þ.e. 90 milljónir kr. Í annan stað er fullt vald um framkvæmd samningsins í höndum þeirra sem eru í héraði. Að því leyti er um valddreifingu að ræða þannig að hugmyndir sem heimamenn hafa uppi, t.d. um sköpun starfa fyrir konur, eiga greiðan farveg í gegnum þann vaxtarsamning. Þó get ég upplýst hv. þingmann um að í grunnlínum samningsins er lögð sérstök áhersla á ferðaþjónustu og það er leiðbeining af hálfu iðnaðarráðherra til þeirra sem véla með samninginn.

Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem borin er uppi af konum og brautin er rudd af konum. Að stærstum hluta eru frumkvöðlar í ferðaþjónustu konur. Þarna er um að ræða möguleika til þess að greiða fyrir því.

Í annan stað hef ég beitt mér sérstaklega fyrir því að 20 millj. kr. verði settar til námskeiðahalds fyrir konur sem áhuga hafa á frumkvöðlastarfsemi og fyrirtækjarekstri. Þessi upphæð var sett í verkið sérstaklega með tilliti til þess, hv. þingmaður, hve mikil eftirspurn er eftir því sökum þess hversu vel það hafði gengið í tilteknum hluta í kjördæmi hv. þingmanns, þ.e. á Vestfjörðum.

Í þriðja lagi hefur ríkisstjórnin sett upp sérstakan ráðgjafa, atvinnuráðgjafa, á Sauðárkróki sem hefur beinlínis það verkefni að miðla og stuðla að sköpun starfa fyrir konur í krafti verkefnisins Átak fyrir konur á vegum félagsmálaráðuneytisins.

Í fjórða lagi hef ég beitt mér fyrir því og fengið góða samvinnu við aðra ráðherra um að 160 millj. kr. verði sérstaklega varið til að styrkja og byggja upp ferðaþjónustu á þeim svæðum þar sem þorskaflaskerðingin var hvað mest. Ég hef áður rakið hvað sú atvinnugrein er mikilvæg fyrir konur.

Í fimmta lagi hefur iðnaðarráðuneytið í samvinnu við Framleiðnisjóð beitt sér fyrir verkefnum undir heitinu Vaxtarsprotar , sem m.a. hafa verið á tilteknum landbúnaðarsvæðum í því kjördæmi sem fyrirspurnin varðar. Þar er um að ræða störf við uppbyggingu á bóndabýlum sem hefur gagnast konum ákaflega vel eins og sést á því að þær eru þar yfirleitt í forsvari. (Forseti hringir.)

Í sjötta lagi ætlaði ég síðan að tala um það sem hv. þingmanni er hjartfólgnast en hef ekki tíma til núna, sem er norðvesturnefndin.