135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

neyðarsendar.

267. mál
[14:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Árið 1979 var mörkuð sú stefna að koma fyrir neyðarsendum í öllum gúmbjörgunarbátum íslenska skipaflotans. Hér var um gríðarlega mikið öryggisatriði að ræða og ljóst að gúmbátabaujur og neyðarsendar í íslenskum fiskiskipum hafa bjargað mörgum mannslífum við Íslandsstrendur.

Þetta fyrirkomulag var á sínum tíma mikið framfaraspor og stóðum við Íslendingar öðrum þjóðum framar að þessu leyti. Í dag kann að vera vá fyrir dyrum ef við höldum ekki vöku okkar. Við Íslendingar lögfestum ýmsar reglur Evrópusambandsins en innan þess regluveldis er að finna reglur sem gera ekki — og ég ítreka — sem gera ekki kröfu um neyðarsendi í fiskibátum og því þarf að tryggja að þær verði ekki lögfestar á Íslandi.

Það þarf fleira að skoða vegna neyðarsenda því frá og með 1. febrúar 2009 verður hætt að vakta tíðni 121,5 sem er alþjóðleg neyðarsendafjarskiptatíðni flugvéla um allan heim og 243 megahertsa til að staðsetja neyðarsenda sem núverandi gúmbjörgunarsendar eru á og í staðinn verða þjóðir að vera búnar að skipta yfir í 406 megahertsa neyðarsenda og bauju og helst með GPS-viðtæki sem nemur réttan stað með plús eða mínus 100 metra nákvæmni.

Því er nauðsynlegt að endurskoða núverandi fyrirkomulag vegna þessara fyrirhuguðu breytinga 1. febrúar 2009 og að samhliða þeirri endurskoðun verði einnig hugað að neyðarsendum í skemmtibátum svo hægt verði að tryggja enn frekari öryggi sæfarenda.

Herra forseti. Í vaktstöð siglinga sem byggir á samstarfi tveggja ráðuneyta, samgönguráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, hefur verið komið á saumlausum samskiptum mikilvægra öryggisaðila sem áður störfuðu hver á sínum stað og tækjabúnaður, þekking og reynsla hafa verið sameinuð í öflugri einingu til þjónustu við sjófarendur, sjóbjörgunarsveitir og aðra sem þurfa á þjónustu hennar að halda. Ferli er eitt hið markvissasta og einfaldasta sem þekkist í heiminum og ýmsir erlendir aðilar hafa kynnt sér það í leit að góðri fyrirmynd til þess í senn að auka öryggi og bæta þjónustu.

Því er ljóst að við Íslendingar stöndum framarlega á þessu sviði en ef til vill má ætíð gera betur. Því beini ég þeirri þremur fyrirspurnum til hæstv. samgönguráðherra.

1. Hyggst ráðherra tryggja að reglur Evrópusambandsins, sem ekki gera kröfur um neyðarsenda í gúmbjörgunarbátum, eins og hér hefur verið skylda frá 1979, verði ekki teknar upp hér á landi?

2. Hefur ráðherra hugleitt að skipa starfshóp sem skoði hvernig endurnýjun neyðarsenda er háttað og að gera breytingar á reglum til að tryggja enn frekar öryggi sæfarenda?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir aðgangi Íslendinga að alþjóðlegum öryggis- og fjarskiptakerfum sem byggjast á þjónustu gervihnatta við leit og björgun mannslífa á sjó og landi?