135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

Sundabraut.

321. mál
[14:56]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það sem skiptir mestu máli í þessu efni er að fullnægjandi umferðarbætur verði gerðar sem fyrst. Ég vara við því að stjórnmálamenn hleypi sér út á þann uppboðsmarkað að telja þá einu lausn fullnægjandi sem er dýrust. Það hefur ekki verið niðurstaðan í umferðarbótum um landið, nær undantekningarlaust en því miður ekki án undantekninga.

Menn hafa valið skynsamlegar leiðir og látið hjá líða að fara í dýrustu lausnirnar vegna þess að ekki hefur verið til fjármagn til þess. Þær lausnir sem orðið hafa ofan á hafa verið fullnægjandi. Það er mjög slæmt ef menn fara í mjög dýr verkefni umfram það sem þarf því að það mun bitna á landinu öllu. Það mun bitna á úrbótum um land allt. Enginn vill vinna að því, virðulegi forseti.