135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.

322. mál
[15:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi en segja má að þær þrjár fyrirspurnir sem ég hef lagt fram til hæstv. samgönguráðherra og eru til umræðu í dag tengist allar hver annarri.

Í gildandi samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi en hér hefur þegar komið fram í umræðum um Sundabraut það mat fjölmargra þingmanna að umferðaræðarnar að og frá höfuðborginni séu meðal mikilvægustu samgöngumannvirkja sem við þurfum að ráðast í. Tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi er orðin afar þýðingarmikil vegna vaxandi umferðarþunga. Umferðarþunginn til og frá höfuðborginni, m.a. um Vesturlandsveginn, hefur aukist ár frá ári og umferðaröryggissjónarmið kalla á brýnar úrbætur. Þetta er málefni sem íbúar á Kjalarnesi, hverfisráðið á Kjalarnesi, íbúasamtök og íbúar almennt á íbúafundum hafa margítrekað tekið til umfjöllunar, sent áskoranir til borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda á landsvísu, og kallað eftir úrbótum.

Vegagerðin hefur sömuleiðis látið þau sjónarmið í ljós að nauðsynlegt sé að ráðast í úrbætur á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi. Það sem þar er hvað brýnast er að greina þá umferð sem beinist að Kjalarnesi, hvort sem það er í þéttbýliskjarnann í Grundarhverfi, á einstök lögbýli, því að enn er stundaður landbúnaður á Kjalarnesi, eða í þær stofnanir sem þar eru starfræktar eins og skólarnir, frá gegnumakstursumferðinni um Kjalarnes.

Ég hef þess vegna leyft mér að leggja fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra:

1. Mun ráðherra beita sér fyrir því að tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi verði í næstu samgönguáætlun?

2. Hvenær mætti búast við að framkvæmdir gætu hafist við þá mikilvægu samgöngubót?

3. Hvaða stefnu hefur ráðherra um fjármögnun verkefnisins? Mun hann tryggja jafnt aðgengi allra vegfarenda um veginn eða hyggst hann leggja til upptöku veggjalda?