135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.

322. mál
[15:09]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hér skuli komnar til umræðu vegtengingar við Reykjavík, bæði með Sundabraut og um Kjalarnesið. Ég vildi aðeins að koma upp til að ítreka að hér er um gríðarlega mikilvæga framkvæmd að ræða sem skiptir miklu máli að vel takist og gangi hratt fyrir sig. Sjálfur sé ég fyrir mér að þarna verði strax ráðist í 2+2 veg um Kjalarnesið og að Sundagöngum og treysti á að það verði unnið hratt og vel að því að verkið komist í gang ásamt því að hafinn verði undirbúningur að tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Ég ætla bara að segja það strax hér, af því að umræðan um gjaldtöku hefur verið töluvert á döfinni undanfarið, að ég mun aldrei geta stutt það með neinum hætti að frekari gjaldtökur verði á þessari leið eingöngu. Ég er tilbúinn að skoða alla möguleika en sjálfur er ég þeirrar skoðunar að gjaldtökur á vegum með þeim hætti sem verið hefur hingað til séu úreltar og óþarfar og hægt sé að finna aðrar leiðir til að fjármagna vegaframkvæmdir.