135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.

322. mál
[15:19]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þingmönnum fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um samgöngumál, bæði nú og áður, það er hið besta mál. Hv. þingmenn tala um mikilvæga umræðu og breytingu hvað varðar umræðu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef átt sæti í samgöngunefnd í átta ár og held að alltaf hafi verið mikill skilningur á samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu á sama hátt og höfuðborgarþingmenn hafa skilning á samgöngubótum sem þarf að gera á landsbyggðinni. Það hefur hins vegar verið þannig og er enn að fé hefur verið af skornum skammti og ekki hefur verið hægt að gera allt.

Mikið var rætt um Sundabraut í þau átta ár, síðustu tvö kjörtímabil, sem ég var í samgöngunefnd. Það er einu sinni þannig að málin þokast áfram, sumum finnst allt of hægt og það er alveg rétt. Við nálgumst þó ákvörðunartöku, það er komið ótrúlega langt núna, og töluvert fé er veitt í þetta.

Ég ítreka þakkir mínar til þingmanna fyrir stuðning við mikilvægi samgangna, en vil jafnframt minna á að í stjórnarsáttmála þeirrar ágætu ríkisstjórnar sem nú situr er sérstaklega kveðið á um átak í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Að sjálfsögðu verður staðið við það eins og annað sem ríkisstjórnin ætlar að gera. (Gripið fram í: Heyr!)