135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

323. mál
[15:27]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv . forseti. Hér er rætt um tvöföldun Hvalfjarðarganga og ástæða til að ítreka að mikilvægt er að fara að taka ákvarðanir um það. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að sú ákvörðun verði tekin í tólf ára áætluninni, þ.e. um framkvæmdir fyrir árið 2018, einfaldlega af umferðaröryggisástæðum.

Það hefur komið fram að Hvalfjarðargöngin voru afar vel heppnuð og réttlætanleg framkvæmd á sínum tíma, frábær framkvæmd. Félagið hefur verið vel rekið af Speli sem er einkahlutafélag og sér um að reka göngin. Aftur á móti hafa orðið breytingar með tímanum, akstur fyrir Hvalfjörð er ekki lengur sami valkostur, göngin eru orðin hluti af Þjóðvegi 1. Ég tel því ástæðu til að afnema gjaldtökuna. Eftir sem áður skal ég fallast á að málin verði skoðuð heildstætt og gjaldtakan verði skoðuð í tengslum við aðra gjaldtöku á vegum. Það kostar kannski lítið fyrir mig að fara á milli hverja ferð, um 240 kr., en ekki má horfa fram hjá því að allt í allt fara um 140–150 þús. kr. á ári hjá þeim sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu. (Forseti hringir.) Það þýðir u.þ.b. 20 þús. kr. í tekjur til viðbótar á mánuði til þess að geta borgað gangagjaldið og það vegur þungt. — Ekki hjá þingmönnum að vísu.