135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

neyðarbíll án læknis.

[10:37]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér þykja þessi svör fremur loðin. Hæstv. ráðherra ásakar mig um að nota þetta orðalag „að tefla öryggi sjúklinga á tæpasta vað“. Ég tek fram að það er tekið úr ummælum læknis sem ég nefndi í ræðu minni sem fjallaði um málið í fréttatíma Ríkisútvarpsins í gær, þ.e. Bjarna Þórs Eyvindssonar. Mér finnst það ekki réttlæta þessa gerð að hún hafi verið lengi í undirbúningi, eins og hæstv. ráðherra segir.

Í fréttum kemur fram að hún hafi einungis verið í undirbúningi frá því í byrjun desember, þ.e. þetta hafi verið tilkynnt í byrjun desember. Varðandi hina faglegu hlið þá eru það faglegir einstaklingar, læknar á stofnununum, sem gagnrýna þetta. Það er greinilegt að ekki hefur náðst sátt um þetta inni í stofnuninni og þar eru meðal faglegra, mjög hæfra einstaklinga uppi mjög alvarlegar ásakanir. Það er mjög eðlilegt að þær komi inn á borð okkar þingmanna. Það er líka eðlilegt að hæstv. ráðherra svari því á annan hátt en að segja að það hafi engin áhuga á að tefla öryggi sjúklinga á tæpasta vað. Auðvitað hefur enginn áhuga á slíku. Ég ásaka ekki hæstv. ráðherra um að hann hafi sérstakan áhuga á slíku eða aðrir starfsmenn Landspítalans. Ég tel hins vegar að hér sé um að ræða vafaatriði og tel eðlilegt að hæstv. ráðherra svari því hvað hann telur forsvaranlegt í þessum efnum, eða eins og ég orðaði spurningu mína: Hvernig getur verið forsvaranlegt, að mati hæstv. ráðherra, að fara í sparnaðaraðgerðir sem mögulega geta teflt öryggi sjúklinga í tvísýnu?

Það er greinilegt að landlæknisembættið hefur tjáð sig um málið. Það er reyndar mjög undarlegt hvernig haft er eftir landlæknisembættinu í fréttum í gær, þ.e. að ekki sé talið að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu og „nema síður sé“, segir í niðurlagi fréttarinnar. Ég tek það fram að þetta er ekki bein tilvitnun í landlækni en þetta er undarlegt orðalag.