135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

neyðarbíll án læknis.

[10:39]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það skiptir máli þegar við ræðum um heilbrigðismál almennt að menn fari rétt með. Eins og allir þingmenn vita voru fjárframlög til Landspítalans aukin verulega í síðustu fjárlögum, bæði í fjáraukalögum og í fjárlögum. Þetta þekkja allir.

Ef einhver heldur öðru fram þá er hann vísvitandi að fara með rangt mál eða hefur ekki kynnt sér fjárlögin. Svo einfalt er það. (Gripið fram í.) Ef við erum að tala um nákvæmlega þessa hluti og ég held að það sé mikilvægt … (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, ég held að hv. þm. Ögmundur Jónasson sakni gamalla tíma og langi að vera í pontu endalaust, hann getur ekki einu sinni unnt mönnum þegar þeir svara spurningum á nokkrum mínútum að tala án þess að grípa stöðugt fram í. (ÖJ: Ráðherra er að fara með rangt mál.) Ég hvet hv. þingmann til að lesa fjárlögin.

Hins vegar liggur fyrir að þingmenn samþykktu ákveðið kerfi, faglegt eftirlit hjá landlækni, og landlæknir hefur tjáð sig um þetta einstaka mál.