135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

framkvæmdir á Reykjanesbraut.

[10:45]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svarið. Vissulega hefði ég viljað fá ákveðnara svar þar sem niðurstaða lægi fyrir með hvaða hætti haldið verður áfram með þetta verk. Ég heyri þó að niðurstöðu er að vænta fljótlega og það er auðvitað vel en vonandi verður það ekki til þess að verkið frestist neitt verulega frá því sem fyrirhugað er.

Ég vil þó ítreka vegna öryggismálanna sem við Suðurnesjamenn höfum lagt mjög mikla áherslu á, m.a. sérstaklega á Reykjanesbrautinni, að eins og veðurfar hefur verið undanfarið er auðvitað mjög nauðsynlegt að hugað sé vel að því að hreinsa merkin sem þarna eru. Það er því gott að vita það að Vegagerðin er komin með það mál á sínar hendur núna.