135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

vernd lögreglumanna og refsingar við líkamsárásum.

[10:48]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra hvort í bígerð sé í dómsmálaráðuneytinu að setja ákveðnar reglur um hert viðurlög vegna líkamsárása og/eða til verndar opinberum starfsmönnum og þá sérstaklega lögreglumönnum.

Samkvæmt fréttum sem hafa komið síðustu daga sitja inni fimm einstaklingar vegna fólskulegrar árásar á lögreglumenn þar sem þeir réðust að óeinkennisklæddum lögreglumönnum sem voru við skyldustörf, án þess að nokkurt tilefni hefði gefist til eða verið væri að skipta sér af þeim einstaklingum sem þarna var um að ræða og einn lögreglumannanna hlaut alvarlegt höfuðhögg. Þarna virtist vera um skipulagða árás að ræða.

Það liggur fyrir að bætur til lögreglumanna sem verða fyrir árásum og hnjaski eru skammarlega lágar og því er spurningin með hvaða hætti á að setja verndarumgjörð um opinbera starfsmenn og sérstaklega þá sem sinna hættulegum störfum við að halda uppi lögum og reglum í þjóðfélaginu. Telur dómsmálaráðherra að þeir dómar sem fyrir liggja og viðurlög samkvæmt þeim séu í samræmi við það sem eðlilegt verður að telja í nútímaþjóðfélagi?

Ég skoðaði nýlega dóma í líkamsárásarmálum og ætla að benda á að í nóvember 2006 kvað Hæstiréttur upp dóm vegna brots á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. fólskuleg meiri háttar líkamsárás, þar var dæmt í sex mánaða fangelsi, í desember 2006 vegna brots á sömu grein, þar var dæmt í átta mánaða fangelsi, þar af sex skilorðsbundnir, og í nóvember 2007, blæðing á bak við vinstri hljóðhimnu og höfuðkúpu- og nefbrot, sex mánaða fangelsi. Og Héraðsdómi Reykjavíkur 7. janúar, heilahristingur, skurður og þrjár tennur brotnar, tíu mánaða fangelsi.

Það virðist vera að íslenskir dómstólar meti slíkar alvarlegar líkamsárásir eins og um sé að ræða ryskingar að loknum réttarböllum eða eitthvað þess háttar en þarna er iðulega um skipulega atvik (Forseti hringir.) að ræða sem verður að bregðast við.