135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:14]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í þessari málsgrein er verið að leggja til að í þeim tilvikum sem tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli valdið færast úr höndum þess sem beðið er um að tilnefna til þess sem skipar. Ég tel, a.m.k. að því leyti sem þetta varðar stjórnmálaflokkana sjálfa, óásættanlegt að stjórnmálaflokkum sé gert með lagasetningu að ráða því ekki lengur sjálfir hverjir sitja að störfum fyrir þeirra hönd í ráðum, nefndum eða stjórnum. Stjórnmálaflokkar starfa á grundvelli umboðs sem þeir sækja sér til kjósenda. Þeir gera upp störf sín við kjósendur og ég sé ekki að neinar forsendur séu fyrir því að sett séu með löggjöf einhver ákvæði til þess að leiðrétta ákvarðanir kjósenda eða hafa vit fyrir þeim. Við munum því greiða atkvæði gegn þessu ákvæði.