135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:32]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er mjög eðlilegt að þessi umræða fari fram þegar þing kemur saman að loknu jólaleyfi í ljósi þess umróts sem hefur verið á mörkuðum að undanförnu.

Ég vil hins vegar nefna það hér að ég tel að það séu aðallega tveir áhrifaþættir sem valda því sem nú er að gerast. Í fyrsta lagi er það almenn lausafjárkreppa í heiminum sem á rót sína að rekja til veðlána á bandarískum mörkuðum. Við getum sagt að mikill viðsnúningur hafi orðið á fjármálamörkuðum, þar sem áður var allt fullt af fé er nú mikil þurrð.

Í öðru lagi vil ég nefna, og það verður formaður Framsóknarflokksins að hafa í huga þegar hann talar um efnahagsmálin, að áhrifavaldur núna er sú mikla þensla og sá viðskiptahalli sem hefur verið hér á undanförnum árum. Við skulum ekki gleyma því að viðskiptahallinn var 26% á árinu 2006 og verðbólgan 6,8%. Það var auðvitað ávísun á langtímaverðbólgu sem er m.a. að koma fram núna.

Varðandi stöðuna sem uppi er er mjög mikilvægt, eins og forsætisráðherra sagði, að halda ró sinni og greina tímabundna erfiðleika frá lengri tíma vandamálum. Ekkert bendir til annars en að bankarnir okkar standist fyllilega samanburð við banka á hinum Norðurlöndunum og gengi íslenskra fjármálafyrirtækja hefur ekki lækkað meira síðustu mánuði en gengi fjármálafyrirtækja á mörkuðum í kringum okkur. Þeir eru að fara í gegnum tímabundna erfiðleika núna og það skiptir miklu máli að allir haldi ró sinni við þær aðstæður og allir aðilar máls vandi sig. Það á hvort heldur við um okkur sem erum í ríkisstjórn, stjórnarandstöðuna, bankana, Seðlabankann, aðila vinnumarkaðarins sem og aðra sem að þessum málum koma.

Ég fullyrði, (Forseti hringir.) og fullvissa formann Framsóknarflokksins um, að það er fullur (Forseti hringir.) vilji hjá ríkisstjórninni til samstarfs við alla aðila.