135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:34]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lét þess getið í upphafi máls síns að staða ríkissjóðs væri sterk. Vissulega er það svo að ríkissjóður hafði mikinn afgang á síðasta ári og gert er ráð fyrir verulegum tekjuafgangi á þessu ári. Margt bendir hins vegar til þess að tekjur ríkissjóðs muni dragast saman á árinu. Án þess að ég sé neitt að tala niður ástandið hljóta allir að átta sig á því að fjármagnstekjuskattur og tekjuskattur frá lögaðilum muni lækka á árinu. Það verður að tala um hlutina eins og þeir eru og að mínu mati stefnir í að sá 39 milljarða króna afgangur sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga verði eitthvað minni en það, jafnvel allt að því helmingi minni. Þar fyrir utan er ríkissjóður kannski ekki í neinni hættu.

Ég undrast hins vegar mjög að ríkisstjórnin hafi valið þá leið sem hún valdi í sambandi við kjarasamningana. Þar tel ég að hún hafi aukið á óvissuna í þjóðfélaginu, að lýsa því ekki yfir að hún væri tilbúin að vinna að útfærslu sem stuðlar að því að hækka rauntekjur láglaunafólks. Það hefði verið mjög jákvætt og gott innlegg í kjarabaráttuna. Eins og sú barátta hefur verið að þróast síðan bendir margt til þess að það stefni í átök og hærri kröfur á vinnumarkaði að því er varðar laun en ella hefði verið. Ég held að þetta hafi verið misráðið. Við þurfum vissulega að halda ró okkar og eigum ekki að stuðla að ójafnvægi en ég held að ríkisstjórnin hafi (Forseti hringir.) samt farið þar á undan.