135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:48]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hófstillta og ábyrga umræðu. Mér fannst örla á meiri ábyrgð hjá hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra, forustumönnum ríkisstjórnarinnar. Þeir hafa áhyggjur og horfa á málin með öðrum augum. En enn finnst mér vanta á úrræði og að ríkisstjórnin ætli að taka á málunum.

Það er í raun sorglegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra, sem er, ef ég veit rétt, master í hagfræði, hafa þann sama háttinn á og hæstv. fjármálaráðherra, að grobba af miklum afgangi á ríkissjóði sem er fyrst og fremst til kominn vegna mikillar eyðslu í landinu og uppgangs á síðustu árum, mikilla innkaupa í landi sem skilar ríkissjóði tollum og gjöldum. Það er ekki mælikvarði hagfræðinnar á rekstur ríkissjóðs, eins og hér hefur komið fram í umræðunni. Mig minnir að hæstv. fjármálaráðherra hafi nú óvart fundið einhverja tugi milljarða til viðbótar í ríkissjóði í haust þegar þing kom saman sem hann átti ekki von á, sem er til marks um eyðsluna í samfélaginu.

Ég vil í lokin leggja áherslu á það sem komið hefur fram hjá þeim sem talað hafa og hæstv. forsætisráðherra. Það er mikilvægt að halda ró sinni við þessar aðstæður og reyna að taka á málunum. Forsætisráðherra getur ekki látið eins og hann sé blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Hann er foringi ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra og verður að beita því frumkvæði sem forsætisráðherrar gera í öllum ríkisstjórnum til að afstýra kreppu.

Sem betur fer er mikill þróttur í íslensku samfélagi. Fyrir 12 árum var það ekki þannig. Þá var hér atvinnuleysi og neyð. Nú eigum við mikla möguleika. Við þurfum að afstýra þessari kreppu. Það getum við með samstilltu átaki en þess vegna verður ríkisstjórnin í framhaldi (Forseti hringir.) af þessari umræðu að vakna og halda vöku sinni.