135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:50]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er rétt að aðstæður hafa breyst nokkuð á undanförnum vikum. Þá er mikilvægt að menn setjist niður og greini hver vandinn er, hvaða ástæður eru fyrir honum og hvernig er hægt að bregðast við. Þá vill svo til, alveg sama hvað hv. þm. Guðni Ágústsson segir, að það skiptir miklu máli að staða ríkissjóðs er sterk, að staða fjármálastofnananna á Íslandi er gríðarlega sterk og að sveigjanleiki hagkerfisins er mikill, í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á því á undanförnum árum. Allt þetta skiptir núna verulegu máli.

Óvissan er af margvíslegum toga eins og ég sagði í upphafi. Kjarasamningar eru lausir. Samningsaðilarnir eru ábyrgir, þess er ég fullviss og ríkisstjórnin mun ekki skorast úr leik ef til hennar kasta kemur.

Aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa gert okkur erfitt fyrir eins og mörgum öðrum. Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra að þótt gengi íslensku fjármálastofnananna hafi lækkað á undanförnum mánuðum þá hefur það sama gerst í öðrum löndum. Fyrir því eru ástæður sem ekki er tími til að fara út í við þessa umræðu.

Kjarasamningar eru lausir. Það er óvissa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. En það verður líka að taka það fram að í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er ekki tekið tillit til hluta sem kunna að vera fram undan, ákvarðana sem ekki hafa verið teknar, ákvarðana sem ekki hafa verið formlega teknar eða afgreiddar. Þar er t.d. um að ræða möguleikana á frekari stóriðjuframkvæmdum sem ég þykist vita að muni gleðja hv. þm. Ögmund Jónasson. Framkvæmdir í Helguvík, svo ég nefni dæmi, eru t.d. ekki inni í þessari þjóðhagsspá en munu að sjálfsögðu skipta verulegu máli þegar hægist um í hagkerfinu og dregur úr öðrum framkvæmdum.

Þetta (Gripið fram í.) verða menn að hafa í huga (Gripið fram í.) þegar þetta mál verður gert upp. Ég bið hv. þm. Jón Bjarnason að virða málfrelsi mitt eins og ég geri (Forseti hringir.) jafnan þegar hann talar.