135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[12:10]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson segir að ég taldi og tel enn mjög mikilvægt að þverpólitísk umræða fari fram um stefnumótun á sviði utanríkismála og öryggismála. Það frumvarp sem hér liggur fyrir til varnarmálalaga er fyrst og fremst frumvarp um það hvernig við ætlum að halda utan um þau verkefni sem leiða af veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Ég geng út frá því í þessu frumvarpi. Það er auðvitað rétt hjá þingmanninum að við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu enda er engin tillaga uppi um annað og gert er ráð fyrir að öllum þeim verkefnum sem tengjast veru okkar í því bandalagi sé sinnt í Varnarmálastofnun. Stefnumótunin sjálf liggur hins vegar ekki þar. Stefnumótunin sjálf liggur hjá utanríkisráðuneytinu, hún liggur hjá Alþingi, hjá utanríkismálanefnd Alþingis og hjá þeirri nefnd, sem okkur vinnst vonandi tími til að stofna áður en langt um líður, sem á að fjalla um öryggis- og varnarmál og starfar þá með aðild stjórnmálaflokkanna en utan vébanda Alþingis. Þetta er rammi utan um það verkefni til þess að það sé algerlega skýrt og aðskilið frá öðrum þáttum í íslenskum öryggismálum sem lúta að innra öryggi ríkisins. Stefnumótunin sjálf er ekki í þessari stofnun en það er rétt að það er gengið út frá því að við séum aðilar að NATO enda ekki tillaga uppi um annað.