135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[12:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við munum taka einstaka efnisþætti þessa frumvarps til umræðu á eftir, m.a. hvað varðar stefnumótun sem samkvæmt frumvarpinu eins og ég les það liggur hjá utanríkisráðherra. Áherslan liggur þar fremur en hjá Alþingi. Við munum ræða það nánar á eftir.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að við ættum að hefja okkur upp úr hjólförum liðins tíma. Mér sýnist ríkisstjórnin og þá ekki síst Samfylkingin, því að þessi málaflokkur er á ábyrgð hennar, vera að keyra sig niður í gömlu hjólför hernaðarríkjanna. Og hæstv. utanríkisráðherra leyfir sér að segja að það hafi ekki komið fram tillögur um annað en þann grundvöll sem hér er byggt á, þ.e. hernaðarsamvinnu innan NATO. Við töldum að á nýjum tímum í dögun nýrrar aldar mundu menn taka alla þessa grundvallarþætti til endurskoðunar þegar við mótuðum stefnu okkar til frambúðar. Það var sá skilningur sem ég lagði í orð hæstv. utanríkisráðherra í aðdraganda síðustu kosninga og ég hef trú á því að almennir kjósendur hafi gert það líka. Síðan fáum við þetta, eina allsherjarhernaðarhyggju borna á borð Alþingis.