135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[12:30]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson vildi meina að frumvarpið sem hér er til umræðu einkenndist af mótsögnum milli orða og gjörða. Þær mótsagnir er þá víðar að finna en í því ágæta frumvarpi því ræða hans var ein löng auglýsing fyrir þær mótsagnir sem er að finna milli orða og gjörða í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Hér er reynt að telja okkur trú um að verið sér að geirnegla okkur inn í hernaðarsamstarf með öðrum hætti en við höfum hingað til verið bundin samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins. Það er hrein firra. Það sem hér er verið að gera er að lögfesta þau verkefni sem hingað til hafa verið unnin af íslenskum stjórnvöldum og leiða af veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Með lögfestingunni er tryggt lýðræðislegt eftirlit með þeim verkefnum sem ekki hefur verið fyrir hendi hingað til. Það er með öðrum orðum verið að auka lýðræðisleg áhrif á framkvæmd varnarmála, að öðru leyti er ekki verið að breyta nokkrum sköpuðum hlut.

Eftir stendur að fyrir liggur að ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja á fót vinnu að hættumati. Það liggur líka fyrir að ætlunin er að hefja þverpólitískt samráð um mat á þeim ógnum sem að Íslandi steðja til lengri tíma litið. Mér fannst þetta því frekar billegt útspil hjá hv. þingmanni, svo ekki sé nú meira sagt. Sérstaklega þegar haft er í huga að síðan útskýrir hann stefnu VG sem er sú að fella starf okkar að loftrýmiseftirliti og ratsjárverkefni okkar í borgaralegan farveg og höggva á náin tengsl við NATO. Hér er verið að fella í borgaralegan farveg öll þau störf sem lúta að samskiptum okkar við NATO.

Eftir stendur svo ákveðin svona andleg tregða þingmannsins til þess að viðurkenna Atlantshafsbandalagið fyrir það sem Atlantshafsbandalagið er og ákveðin meinloka hans gagnvart því að Atlantshafsbandalagið sé árásarbandalag. En yfir þá meinloku verður hann að fara að komast.