135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[12:38]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ítreka í þessu stutta andsvari áherslumun okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar um aðild Íslendinga að hernaðarbandalaginu, eins og hann kallar það, Atlantshafsbandalaginu. Hins vegar vil ég gera athugasemd við lokaorð hv. þingmanns í ræðu hans þar sem hann fjallaði um fund í Háskóla Íslands. Þar vísaði hann til þess að hæstv. forsætisráðherra hafi rokið á dyr án þess að svara fyrirspurn í þann mund sem þingmaðurinn bar hana fram.

Ég vil að allrar sanngirni sé gætt enda er hæstv. forsætisráðherra fjarstaddur og ég vil gjarnan leiðrétta þetta vegna þess að ég var þarna líka stödd. Hlutverk hæstv. forsætisráðherra á þessum annars ágæta fundi var það að flytja ávarp. Hann sat síðan fundinn þar til að aðrir framsögumenn höfðu klárað fyrirspurnir sínar en hafði löngu fyrir fram tilkynnt fundarhöldurum að hann mundi síðan þurfa að hverfa af fundi vegna annarra starfa. Ég vildi að þetta kæmi fram vegna þess að mér þótti þetta ómaklegt af hv. þingmanni og vildi leiðrétta þetta atriði.