135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[12:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt að leiðrétta þetta og ef hæstv. forsætisráðherra hefur þurft að sinna öðrum skyldum þá er það skiljanlegt og ég efast ekki um það.

Frá mínum sjónarhóli lítur málið hins vegar út á þann veg að ég fór sem borgari á auglýstan fund, umræðufund eins og hann var auglýstur og básúnaður, um utanríkisstefnu og stefnumótun á sviði utanríkismála þar sem fram færi umræða, á umræðufundum fer yfirleitt fram umræða, ekki bara framsögur. Enda var orðið gefið frjálst og ég fagnaði því mjög að þarna voru staddir oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, sjálfur hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, og ég vildi beina spurningum til þeirra beggja sem ég og gerði. Þá gerist það að hæstv. forsætisráðherra gengur úr salnum. Hv. þingmaður segir að það hafi átt sér eðlilegar skýringar. Ég hef engar efasemdir um að svo hafi verið, ég efast ekkert um það.

En frá mínum sjónarhóli sem kom til umræðufundar, þar sem ráðherrar og oddvitar ríkisstjórnarflokkanna voru auglýstir, þá vildi ég gjarnan að þeir tækju þátt í umræðunni.