135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[13:45]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Almannavarnalögin stangast á engan hátt við þetta frumvarp nema síður sé. Þvert á móti er góð samfella sem þarna er mynduð. Það orðalag sem hv. þingmaður vitnaði til er ekkert nýmæli og hafa verður í huga að almannavarnalögin og aðgerðir á grundvelli þeirra koma til ef svo illa færi að þær ráðstafanir sem gera á samkvæmt varnarmálalögunum brystu. Það er verið að takast á við afleiðingar eftir að allt hefur brostið, allar þær varnaraðgerðir sem menn hafa gert, hvort sem það er gegn snjóflóðum, náttúruhamförum, hryðjuverkum eða hernaðaraðgerðum. Það er því ekki hægt að tengja þetta saman með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir og raunar algjörlega rangt.

Varðandi það að orðið „öryggismálaráð“ komi fyrir þá sat hv. þingmaður nú í þeirri ríkisstjórn sem gekk frá yfirlýsingunni 26. september 2006 þar sem þetta var allt ákveðið og mótað sem síðan var fært út í almannavarnalögunum.

Ekkert sem kemur fram í varnarmálafrumvarpinu, ég vona að hv. þingmaður hafi hlustað á ræðu mína, ef ekki þá bendi ég henni á að lesa hana, hindrar að þau markmið nái fram að ganga sem ég hef lýst í þessum málum.