135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[13:48]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi frumvarpið um almannavarnalögin þá er það til meðferðar í allsherjarnefnd og ég held að ekkert sé því til fyrirstöðu að þingið afgreiði það á þessu þingi.

Varðandi öryggisgæsluna þá er náttúrlega ekki hægt að ganga frá því máli fyrr en þetta frumvarp, varnarmálalagafrumvarp, er orðið að lögum. Menn hafa fjallað um það í þinginu og veitt Varnarmálastofnun það tilvistarleyfi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég tel að hún geti samið við lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum og eigi að gera það en ég hef ekki forræðið yfir því hvort það verði gert. Ég tel að það sé skynsamlegt og það embætti er eini aðilinn á Suðurnesjum sem hefur nauðsynlegar valdheimildir til þess að gæta öryggis á Keflavíkurflugvelli. Enginn annar aðili, hvorki samkvæmt þessu frumvarpi né öðrum lögum, hefur þær valdheimildir sem lögreglustjórinn hefur.