135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[13:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið áhugaverðar umræður um það frumvarp sem liggur fyrir þinginu og má segja að það marki að mörgu leyti tímamót. Ég hygg að þetta sé í fyrsta sinni sem lögð er fyrir Alþingi tillaga um stofnun Varnarmálastofnunar og að eitt ráðuneyti verði skilgreint á þann hátt að það fari með varnarmál og verði raunverulegt varnarmálaráðuneyti. Það er býsna mikil breyting frá því sem verið hefur og fyllsta ástæða til þess að gefa því gaum.

Sá grundvöllur sem málið hvílir á almennt séð, sú stefna sem menn byggja þennan tillöguflutning á, að Ísland sé aðili að NATO og Sameinuðu þjóðunum og að þar sé samstarf við NATO, Bandaríkin og nágrannaþjóðir um varnir landsins og — sem er kannski mikilvægast — að landið sé herlaust, eru forsendur sem ég tek undir og Frjálslyndi flokkurinn gerir engar athugasemdir við. Hann styður öll þessi atriði og hefur gert. Ég hef ekki orðið var við það í þessari umræðu að ágreiningur væri gerður um þessa meginþætti í umræðunni nema þá e.t.v. að einhverju leyti af hálfu vinstri grænna.

Að öðru leyti vil ég segja um málið að það fyrsta sem kemur til athugunar er uppsetningin á því. Það er álitamál hvort vista eigi þennan málaflokk í utanríkisráðuneytinu að svo miklu leyti sem gert er ráð fyrir. Það ekki sjálfgefið að varnarmál heyri undir utanríkismál að öllu leyti og vissulega er það ekki svo hjá öðrum ríkjum, það er breytilegt hvernig þessum málum er fyrir komið en það er ekki sjálfgefið mál. Ég vildi undirstrika það til þess að það lægi fyrir að það sé ekki forsenda sem þurfi ekki frekar athugunar við. Ég tel að menn eigi að hugsa þessi mál áfram en ég geri ekki athugasemdir við það eins og málum er fyrir komið núna að menn stígi þetta skref og sjái svo til hvernig þetta reynist. Í því felst auðvitað að það er vandasamt að ganga frá samskiptum innan lands milli utanríkisráðuneytisins og annarra ráðuneyta sem fara með mál sem lúta að öryggismálum, eins og landhelgisgæslu og annað slíkt. Eins og gengið er frá því í frumvarpinu sýnist mér að búast megi við því að þetta geti gengið tiltölulega greiðlega fyrir sig og með sæmilega skýrum hætti. En það gildir um það eins og hið fyrra að reynslan verður að leiða okkur áfram í þeim efnum. Menn velja þetta fyrirkomulag og ég geri ekki ágreining um það en við skulum fylgjast með því hvernig til tekst. Það getur vel verið að þegar á framkvæmdina reynir komi einhverjir agnúar í ljós eða annmarkar sem leiði til þess að endurmeta þurfi þetta fyrirkomulag.

Ég tel það líka skynsamlegt, sem lagt er til í frumvarpinu, að setja framkvæmdaatriðin mikið til inn í stofnun sem fari þá með þau mál en stefnumótun og ábyrgð verði fyrst og fremst í ráðuneytinu. Þó vil ég aðeins vara við þróun sem er í gangi í stjórnsýslunni síðustu árin og er á þá lund að menn færa býsna mikið af ákvörðunum frá ráðuneytum til stofnana. Það gerir það að verkum að ráðherrarnir verða dálítið minna framkvæmdaráðherrar og dálítið meira ráðherrar sem bíða eftir því að klögumál komi upp sem er síðan skotið til þeirra. Við höfum séð síðustu daga ansi mörg dæmi um það að ráðherrar lýsi sig vanhæfa til að fjalla um mál vegna þess að hugsanlega verði ágreiningur um það mál sem þeir eru beðnir að tjá sig um og þeir kjósi því að hafa ekki skoðun á málinu. Ég get nefnt samgönguráðherra sem síðasta dæmi um þetta, umhverfisráðherra er annað dæmi og fjármálaráðherra er þriðja dæmið sem ég man eftir í svipinn. Þó að þetta eigi allt sínar skýringar er það samt þannig að þegar maður skoðar öll þessi mál í heild sinni er þetta of mikið af því góða.

Ég held að menn séu komnir of langt inn á þá braut að ráðherrar sem fara með framkvæmdarvald fara að líta svo á að þeir séu ekki eiginlegt framkvæmdarvald heldur einhvers konar eftirlitsvald. Það held ég að sé ekki rétt, framkvæmdarvaldið er framkvæmdarvald, á að bera ábyrgð á því og annast framkvæmd. Það er svo praktískt atriði hvort framkvæmdin fari fram innan dyra ráðuneytisins eða utan dyra þess og samskipti þar á milli eru einungis hluti af framkvæmdinni. Ég held að menn þurfi að taka þetta til endurskoðunar og snúa af þeirri braut sem farið hefur verið inn á á undanförnum árum. Ég neita því þó ekki, þó að ég geti auðvitað ekki haldið því fram sem fullgildum sannindum, að mér býður í grun að þessi nýjasta tilhneiging ráðherra til að lýsa sig vanhæfa til að tjá sig um mál sé meira byggð á öðrum forsendum en umhyggju fyrir málinu sem kann að lenda inni á þeirra borði síðar. Mér býður í grun að þar sé um það að ræða að þeim finnist pólitískt þægilegt að þurfa ekki að svara erfiðum spurningum um viðfangsefni sín. Ef það eru réttar grunsemdir hjá mér eru ráðherrarnir farnir að vanrækja hlutverk sitt sem ráðherrar og skjóta sér undan þeirri ábyrgð sem þeir hafa tekist á hendur með því að verða ráðherrar, sem er auðvitað sú að fara með sín mál, hafa skoðun á þeim og beita sér fyrir framkvæmdum.

Það sem ég staldra kannski hvað mest við í þessu, sem mér finnst að þurfi hugsanlega að hafa með öðrum hætti og hugsanlega ræða betur, er í fyrsta lagi staða málaflokksins og ráðherrans. Frumvarpið endurspeglar það að við erum með fjölskipað stjórnvald. Allt valdið í málaflokknum er í höndum eins ráðherra og einskis annars. Til dæmis er mjög sláandi að orðið „ríkisstjórn“ kemur hvergi fyrir í frumvarpinu og ekki heldur í þeim lögum sem um þetta fjalla. Ríkisstjórnin hefur ekkert hlutverk í utanríkismálum, ráðherrann er einn með valdið. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnarfundur hefur ekkert hlutverk vegna þess að á þeim fundi er ekki unnt að gera neinar samþykktir í málaflokknum. Menn geta bara drukkið saman te og skipst á skoðunum, það er eina hlutverk ríkisstjórnar að vera pólitískur samráðsvettvangur.

Ég er ekki alveg viss um að það sé heppilegt að hafa þetta með þessum hætti. Í fyrsta lagi er valdið of mikið á einni hendi og fyrst við höfum það fyrirkomulag að hafa ríkisstjórn held ég að menn þurfi að skoða með hvaða hætti ríkisstjórnin eigi að bera meiri ábyrgð sameiginlega og koma saman að ákvörðunum þannig að einn maður geti ekki tekið ákvörðun, burt séð frá því hvað öðrum finnst og jafnvel án þess að spyrja aðra ráðherra um það hvað þeim finnist. Vísa ég þá til margfrægs máls um Írak. (Gripið fram í.) Eftir því sem lýst hefur verið var ákvörðun um að fara inn á lista hinna viljugu þjóða ekki borin upp í ríkisstjórn, var ekki kynnt í ríkisstjórn, var ekki rædd í ríkisstjórn heldur tekin með því að fara út af ríkisstjórnarfundi.

Ég sé ekki betur en hér sé lagt til sama fyrirkomulag. Þessi ríkisstjórn vill ekki breyta því fyrirkomulagi sem leiddi til þess að tveir menn töluðu sig saman um að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða. Því er hægt að breyta ef vilji er fyrir hendi með því að gera ákvörðunina kollektífa, færa hana inn á vettvang ríkisstjórnarborðsins eða með því sem er eðlilegra að slík ákvörðun verði tekin á Alþingi. Það er ekki lagt til, virðulegi forseti. Hér er lagt til sama fyrirkomulag og gilti árið 2003.

Mér finnst, virðulegi forseti, helsti gallinn í þessu máli vera sá að orðið „Alþingi“ kemur hvergi fyrir í frumvarpinu. Alþingi hefur engu hlutverki að gegna í frumvarpinu. Það má vera að mér hafi yfirsést við lestur frumvarpsins og ég vona að ég verði þá leiðréttur, ég sé ekki að orðið „Alþingi“ komi fyrir í frumvarpstextanum. Það kemur hins vegar fyrir í greinargerð og í greinargerð er talað um að Alþingi hafi eftirlitshlutverk. Er það, virðulegi forseti, erum við kosin hér til að vera einhver eftirlitsaðili, eigum við að vera einhver samkeppnisstofnun? Ég hélt að stjórnmálamenn byðu sig fram og væru kosnir til þess að ákvarða stefnuna og hrinda henni í framkvæmd. Er þá hlutverk Alþingis í utanríkismálum ekkert annað en að hafa eftirlit?

Hver á að ráða í þessu, virðulegi forseti? Jú, það er ráðherrann. Hann markar stefnuna og hann sér um framkvæmdina og Alþingi hefur ekkert hlutverk, Alþingi kemur ekki nálægt þessum málum. Mér finnst það óásættanlegt. Það eina sem fyrirfinnst í íslenska lagasafninu eða það sem ég hef fundið í íslenska lagasafninu um samband á milli Alþingis og utanríkisráðherra er í 24. gr. þingskapalaga þar sem segir að utanríkismálanefnd skuli vera ríkisstjórninni til ráðuneytis. Ekki er það nú mikið, hlutverkið, að vera til ráðuneytis þar sem textinn segir einfaldlega: Valdið er í utanríkisráðuneytinu hjá ráðherranum en þið sem eruð kosin hér getið verið til ráðuneytis þegar ráðherrunum sýnist og þóknast, helst eftir á og stundum en sjaldan. Þetta er að mínu viti, virðulegi forseti, ekki það hlutverk sem ég tel að menn eigi að ætla Alþingi í þessum málaflokki.

Ráðherrann á að hafa með framkvæmdina að gera en Alþingi á að móta stefnuna. Þess vegna eiga stefnumótandi ákvarðanir að fara fyrir Alþingi í þinglegu formi, hvort sem það er frumvarp eða þingsályktun, og vera rædd á Alþingi og afgreidd á Alþingi og send til ráðherra sem sér um framkvæmdina. Það er of mikið, virðulegi forseti, að ætla ráðherranum að fara bæði með stefnumótun og framkvæmd og ábyrgð á hvoru tveggja.

Þetta er mín helsta athugasemd við uppsetningu málsins, virðulegi forseti, og hún lýtur að því að ráðherravaldið er of altækt. Það á líklega við í öðrum málaflokkum líka, ég er ekki að draga utanríkisráðuneytið sérstaklega fram í því, ég held að flytja megi sömu ræðu um aðra málaflokka, en þetta er mjög áberandi í þessu lagafrumvarpi, það æpir á mann að Alþingi sé ekki til. Það hefur ekkert hlutverk, eina lögbundna hlutverk og nálgun Alþingis er í gegnum utanríkismálanefnd og það er undir trúnaði og þagmælsku. Þeir nýju þingmenn sem þar eru geta því ekki farið með umræðuna áfram inn á vettvang Alþingis, það er lokað inni undir trúnaði. Það er of þröngt, virðulegi forseti, og ég held að menn eigi í þinglegri meðferð málsins að rista þetta upp út frá sjónarhóli Alþingis. Ég held að það sé meginbreytingin sem þurfi að gera á þessu máli því að annað er að mínu viti svona ágætlega ásættanlegt eins og ég hef lýst og sé ekki ástæðu til að gera miklar athugasemdir við ef þá nokkrar.

Það eru nokkur atriði sem mér finnst ástæða til að fá betri upplýsingar um og mun spyrja um það í meðförum utanríkismálanefndar en þetta er sá punktur sem ég held að Alþingi eigi fyrst og fremst að horfa á þegar við förum að vinna í þessu máli í þingnefnd.