135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:04]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem við ræðum í dag markar tímamót í íslenskri löggjafarsögu. Þrátt fyrir að við höfum axlað ýmis verkefni á sviði öryggis- og varnarmála síðustu rúma hálfa öld er nú í fyrsta skipti lagt fram frumvarp til laga um þennan málaflokk. Í gegnum tíðina hafa íslensk stjórnvöld komið að framkvæmd varnarsamningsins og sinnt ýmsum verkefnum í tengslum við hana. Höfuðverkefni stjórnvalda á sviði varnarmála hafa lotið að samskiptum við Bandaríkin sem fóru með hervernd Íslands samkvæmt samningnum frá 1951 og samskiptum við Atlantshafsbandalagið, ýmist í gegnum Bandaríkjamenn eða beint.

Þau tímamót sem urðu við brotthvarf Bandaríkjamanna af landinu breyttu þessari stöðu í grundvallaratriðum og ég tel það mikið fagnaðarefni. Að sumu leyti má segja að Ísland sé nú fyrst orðið sem sjálfstæð þjóð aðili að Atlantshafsbandalaginu í eigin rétti og á eigin forsendum. Fram að þessu höfum við í ýmsu þurft að sækja í gegnum Bandaríkin þegar við höfum átt erindi við Atlantshafsbandalagið og þurft þeirra liðsstyrk og tilstyrk til að koma sjónarmiðum okkar og áherslum á framfæri. Nú er sá tími blessunarlega liðinn og ég held að það sé og eigi að vera okkur öllum mikið fagnaðarefni. Löggjöfin sem hér er lögð fram er því til þess fallin að skapa ramma utan um þessi verkefni, lýðræðislegan ramma sem Alþingi setur. Ef enginn rammi er til er heldur ekki hægt að ganga eftir því að framkvæmdarvaldið fari að lögum og réttum reglum. Þess vegna er nauðsynlegt að setja ramma. Að mínu áliti er það sérstakt fagnaðarefni að þessum málum skuli vera komið svo fljótt í lögfast form þannig að þau varnartengdu verkefni sem við munum vinna að og við höfum unnið að hingað til — að það sé algerlega ljóst hvernig með þau skuli farið, að þau séu skilgreind og tæmandi talin. Þar af leiðandi sé það ljóst hvernig lýðræðislegu eftirliti með framkvæmd þeirra verkefna verði háttað. Það er mikils virði þegar öryggis- og varnarmál eru annars vegar að fullt trúnaðartraust og gagnsæi ríki í allri umræðu um þann málaflokk. Það er sérstaklega mikilvægt þegar haft er í huga að afstaða til þessa máls hefur klofið þjóðina í andstæðar fylkingar í meira en hálfa öld. Þess vegna er svo mikilvægt nú þegar við öxlum sjálfsforræði á þessum málaflokki að fullu og öllu leyti að við högum verklaginu með þeim hætti að fullt gagnsæi sé tryggt í meðferð hans. Jafnframt sé tryggt að Alþingi hafi lýðræðislega aðkomu að öllum ákvörðunum sem að honum lúta.

Í umræðunni í dag hefur verið rætt um nokkra þætti og hefur þá auðvitað verið fyrirferðarmest umræðan um þá yfirfærslu sem nú á sér stað á verkefnum Ratsjárstofnunar yfir til íslenskra stjórnvalda. Þau verkefni verða auðvitað stór þáttur í starfsemi hinnar nýju Varnarmálastofnunar. Hér er um að ræða verkefni sem Bandaríkjamenn sinntu frá upphafi íslenska ratsjárkerfisins. Það er grundvallaratriði til að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu virki, að við öxlum sjálf ábyrgð á þessum verkefnum og sinnum þeim áfram. Ljóst er að ef við lítum á aðild að Atlantshafsbandalaginu sem aðild að tryggingafélagi um sameiginlegt öryggi er sú aðild lítils virði ef við höfum ekki fullnægjandi tengingu í eftirliti með loftrými okkar við loftrými annarra Atlantshafsbandalagsríkja og ef myndin af því sem gerist í íslenskri lofthelgi er ekki ljós bandamönnum okkar í Evrópu. Það er því ein aðalástæðan fyrir því að réttlætanlegt og mikilvægt er að taka yfir þessi verkefni og sinna þeim áfram. Ég hef fulla trú á að það verði gert með heldur minni tilkostnaði en þegar Bandaríkjamenn sinntu þessum verkefnum, enda var stjórnkerfi þessara mála með nokkuð sérstæðum hætti á þeim tíma, svo ekki sé meira sagt.

Einnig er rétt að vekja athygli á því að í frumvarpinu er að finna ákvæði þar sem er lögfest ákvæði um verkefni hinnar nýju stofnunar á sviðum sem lúta að meðferð upplýsinga um öryggismál. Þá á ég annars vegar við hlutverk stofnunarinnar við að afla öryggisvottunar sem lengi var feimnismál yfir höfuð að aflað væri á vegum íslenskra stjórnvalda. Nú er lögfest ákvæði um það sem og um meðferð upplýsinga úr upplýsingakerfum Atlantshafsbandalagsins til að meta ástand í öðrum ríkjum þar sem Ísland á hagsmuna að gæta. Við þurfum að átta okkur á að við eigum fólk í margvíslegum verkefnum á sviði friðargæslu og þróunaraðstoðar um víða veröld og mjög mikilvægt er að við höfum aðgang að gagnlegum og traustum upplýsingum um ástand á hættusvæðum. Við þurfum að geta aflað okkur þessara upplýsinga og nú er skýrt hvernig með þær skuli farið, meðferð þeirra er komin í skilgreindan, lögfestan farveg.

Eitt grundvallaratriðið í frumvarpinu, sem ég er mjög sáttur við, er sú stefna sem mörkuð er, þ.e. að skilja að fullu og öllu milli innlendra löggæslustofnana eins og almannavarna eða lögreglu og hins vegar hinna varnartengdu verkefna sem frumvarpið tekur til. Áðan velti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson upp þeirri spurningu hvort það fyrirkomulag að fella varnarmál undir utanríkisráðuneyti eigi sér fordæmi í öðrum löndum. Það er auðvitað réttmæt spurning. Svarið við henni er það að í flestum öðrum löndum eru sjálfstæð varnarmálaráðuneyti vegna þess að þar er herliði til að dreifa en auðvitað eru engin dæmi þess að innanríkisráðuneyti og varnarmálaráðuneyti sé blandað saman þannig að í öllum tilvikum er varsla innra öryggis ríkisins aðskilin frá vörslu ytra öryggis ríkisins. Það er auðvitað einn af grunnþáttum í lýðræðislegri stjórnskipan sem mikilvægt er að við höldum í heiðri nú þegar við stígum okkar fyrstu skref á þessari vegferð sem sjálfstæð þjóð.

Hér hefur nokkuð verið rætt um ákvæði frumvarpsins sem lúta að hlutverki utanríkisráðherra við mótun öryggis- og varnarmálastefnu. Í frumvarpinu er þess freistað að gera skýran greinarmun á milli framkvæmdaatriða og stefnumótunar. Það er sérstaklega mikilvægt í þessum málaflokki að ekki sé hætta á að þeir sem fara með framkvæmd verkefnanna oftúlki hlutverk sitt og stöðu og útvíkki þar með verkefni sín beint eða óbeint. Það á að vera skýrt með lögum hvaða verkefni þeim er heimilt að vinna, sérstaklega í ljósi þess að við ætlum Íslandi að vera herlaust ríki áfram og byggja á þeirri sögu okkar. Við ætlum stofnuninni eingöngu að sinna borgaralegum verkefnum. Því tel ég mikils virði að þarna skuli greint á milli stefnumótunar og framkvæmdaatriða en vissulega kann svo að vera að ástæða sé til að hnykkja á aðkomu Alþingis að stefnumótun í öryggis- og varnarmálum. Víða í frumvarpinu er vikið að samráði við utanríkismálanefnd og full ástæða er til að fara yfir það þar hvernig útfærslan á að vera og hvort ástæða er til á einhverjum stöðum að hnykkja frekar á lögboðinni samráðsskyldu við utanríkismálanefnd í þessum málum. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því af því að núverandi utanríkisráðherra hefur lagt mikla áherslu á að efla samráðshlutverk utanríkismálanefndar og rækja betur samráðið við utanríkismálanefnd. (Gripið fram í.) Já, já, en maður tekur sérstaklega eftir því að það hefur batnað verulega og mikilvægt er að það haldi áfram að vera rækt með þeim hætti. Einnig er mikilvægt að utanríkismálanefnd verði virt sem ráðgjafi stjórnvalda varðandi stefnumótun í utanríkismálum.

Í þessu samhengi dettur mér í hug ágætur leiðari Fréttablaðsins í dag þar sem Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, heldur um penna og lýkur almennt lofsorði á frumvarpið en vekur upp þá spurningu hvernig haga skuli ákvörðunum um mögulega beitingu hervalds eða eftirfylgni í íslensku loftrými ef til þess kæmi. Það er hlutur sem í sjálfu sér hefur aldrei verið ræddur og það er mjög gott að þessi athugasemd komi fram. Þetta er auðvitað ein af þeim spurningum sem vakna þegar við lögfestum umgjörð þessara mála. Þá þurfum við líka að horfa á hlutina í heild sinni og í því sambandi kemur auðvitað upp spurningin um stuðning eða aðkomu Íslands að beitingu hervalds af hálfu Atlantshafsbandalagsins. Allt eru þetta atriði sem ég held að sé mjög mikilvægt að fá góða og gagnlega umræðu um í utanríkismálanefnd við meðferð málsins og meta alla þættina í heild sinni.